Erlent

Terta Trumps var eftirlíking af tertu Obama

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Donald Trump og Mike Pence fá sér sneið af forsetatertunni. Hún er þó að mestu óæt.
Donald Trump og Mike Pence fá sér sneið af forsetatertunni. Hún er þó að mestu óæt. vísir/getty
Bakarinn Duff Goldman hefur bent á að tertan, sem Donald Trump og aðrir gestir gæddu sér á í kjölfar innsetningarathafnarinnar, leit nákvæmlega eins út og tertan sem Goldman bakaði sjálfur þegar Obama sór sinn embættiseið 2013.

Goldman tísti myndum af tertunum tveimur en af þeim má sjá að líkindin eru sláandi. 

„Tertan til vinstri er sú sem ég gerði fyrir innsetningarathöfn Obama fyrir fjórum árum. Sú sem er á myndinni til hægri er Trumps. Ég gerði hana ekki,“ sagði Goldman í tístinu. 

Ekki er hefð fyrir að tertan, sem snædd er á innsetningarathöfn forseta Bandaríkjanna, líti út samkvæmt einhverjum ákveðnum stöðlum. Terturnar hafa hingað til verið ólíkar að gerð og lögun og því ekki um hefð að ræða.





Gerðist Melania Trump sek um ritstuld þegar hún flutti ræðu á landsþingi Repúblíkana?vísir/getty
Tiffany MacIsaac, eigandi bakarísins sem var falið verkefnið, gaf fram í kjölfar tístsins. Hún sagði í samtali við The Washington Post að hún hefði ekki  verið í bænum þegar pöntunin barst bakaríinu en fullyrti að bakararnir hefðu fengið þau fyrirmæli að búa til nákvæmlega eins köku og þá sem bökuð var fyrir innsetningarathöfn Obama 2013. Ljósmynd af þeirri köku fylgdi jafnframt pöntuninni.

MacIsaac sagði að starfsmenn bakarísins hefðu reynt að hvetja viðskiptavininn til þess að nota ljósmyndina sem „innblástur“ í stað fyrirmyndar. Hann féllst ekki á það.

„Nei, þessi kaka er fullkomin. Þeir vilja nákvæma eftirlíkingu af henni,“ átti hann að hafa sagt við bakarana.

Þess má jafnframt geta að kakan var að mestu leyti óæt fyrir utan neðsta botn hennar. „Þessi kaka er úr frauðplasti, hún er ekki ætluð til neyslu,“ sagði MacIsaac.

Tístarar hafa margir hverjir lýst yfir gremju sinni vegna málsins en sumir þeirra vilja meina að um skýlausan hugverkastuld sé að ræða.

Melania Trump, forsetafrú, flutti sem kunnugt er ræðu á landsþingi Repúblíkana síðasta sumar sem þótti grunsamlega lík ræðu sem Michelle Obama flutti við svipað tilefni


Tengdar fréttir

Trump lætur til sín taka á fyrstu dögum í embætti

Donald Trump hefur tekið sín fyrstu skref sem forseti Bandaríkjanna með því að undirrita tilskipun sem miðar að því að endurskilgreina og endurgera heilbrigðsstefnu Bandaríkjanna sem einnig gengur undir nafninu Obamacare.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×