Enski boltinn

Terry orðinn meðlimur í hundrað leikja klúbbi Meistaradeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry, fyrirliði Chelsea, lét aðeins í sér heyra í 100. leiknum í gær.
John Terry, fyrirliði Chelsea, lét aðeins í sér heyra í 100. leiknum í gær. Vísir/Getty
John Terry, fyrirliði Chelsea, spilaði sinn hundraðasta leik í Meistaradeildinni í gær þegar enska liðið vann 1-0 sigur á Sporting Lissabon en þetta var fyrsti sigur liðsins í keppninni í ár.

Terry sem er 33 ára gamall, varð 21. leikmaðurinn sem nær því að spila 100 leiki í Meistaradeildinni en aðeins sá tíundi sem nær því með einu og sama liðinu. Frank Lampard hafði áður náð að spila 100 Meistaradeildarleiki fyrir Chelsea.

„Ég er mjög stoltur því það eru ekki margir leikmenn sem ná þessu," sagði John Terry eftir leikinn.

„Við töpuðum fyrsta leiknum okkar í fyrra og komum þá til baka og það var alltaf stefnan að koma líka sterkir til baka í kvöld," sagði John Terry en Chelsea gerði jafntefli við Schalke í fyrsta leiknum í ár.

„Það komast ekki margir í 100 leikja klúbbinn og aðeins örfáir ná því að spila 100 leiki fyrir sama félag. Hann hefur kannski ekki verið fyrirliði í öllum þessum leikjum en örugglega í þeim flestum. Hann er sögulegur leikmaður og er stórt nafn í sögu þessu félags," sagði Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea.

John Terry þakkar áhorfendum eftir hundraðasta leik sinn í Meistaradeildinni.Vísir/Getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×