Enski boltinn

Terry: Mourinho besti stjórinn sem ég hef spilað fyrir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Terry spilaði hverja einustu mínútu í ensku úrvalsdeildinni í vetur.
Terry spilaði hverja einustu mínútu í ensku úrvalsdeildinni í vetur. vísir/getty
John Terry, fyrirliði Englandsmeistara Chelsea, segir að Jose Mourinho sé langbesti knattspyrnustjóri sem hann hefur spilað fyrir.

„Það var stórkostlegt að fá hann aftur, bæði fyrir mig og félagið,“ sagði Terry sem spilaði hverja einustu mínútu í ensku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili og afsannaði þar með orð Rafa Benítez, fyrrverandi stjóra Chelsea, sem sagði að Terry gæti ekki lengur spilað tvo leiki á viku.

„Hann er frábær á æfingasvæðinu og er fæddur sigurvegari,“ sagði Terry um Mourinho.

„Hann slakar aldrei á og krefst þess að allir gefi allt sem þeir eiga á hverri æfingu. Hann leyfir engum að slaka á. Það skilur hann frá öðrum stjórum.

„Hann er sá langbesti sem ég hef spilað fyrir. Hann er í öðrum klassa, ekki bara á vellinum heldur einnig utan vallar.“

Þrátt fyrir að vera orðinn 35 ára segist Terry eiga nóg eftir.

„Ég fékk ekki tækifæri hjá Benítez og hann reyndi að afskrifa mig. Ég gat bara svarað fyrir mig inni á vellinum og þetta hefur verið mjög gott tímabil fyrir mig og vonandi get ég haldið áfram eitthvað lengur.

„Það væri frábært að enda ferilinn hjá Chelsea. Vonandi á ég að minnsta kosti tvö ár eftir,“ sagði Terry að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×