Enski boltinn

Terry: Ég fæ að heyra það alls staðar en allir vilja hafa mig í sínu liði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
John Terry veit að hann er ekki vinsælasti maðurinn á svæðinu.
John Terry veit að hann er ekki vinsælasti maðurinn á svæðinu. vísir/getty
John Terry, fyrirliði Englandsmeistara Chelsea, segir að innst inni vilja stuðningsmenn allra liða á Englandi hafa hann í sínu liði.

Terry fær að heyra það frá áhorfendum allra liða á Englandi enda oft verið í umræðunni fyrir miður skemmtilega hluti utan vallar. Hann segir það einfaldlega vera öfundsýki.

Innan vallar gengur honum þó mjög vel, en á 17 árum með Chelsea er hann búinn að vinna enska úrvalsdeildina fjórum sinnum, bikarinn fimm sinnum, deildabikarinn þrisvar sinnum og Meistaradeildina einu sinni.

„Ég er viss um að ef ég væri í þeirra liði myndu þeir elska mig því ég er þessi leikmaður sem gefur sig allan fyrir málstaðinn,“ segir Terry í viðtali við Sky Sports.

„Því miður fylgja þessu hróp og köll en ég er orðinn vanur þeim. Ég fæ að heyra það alls staðar, ekki bara á Englandi heldur hvert sem ég fer.“

„En ég þrífst á þessu og nýti þetta mér til góðs. Ég reyni svo sannarlega ekki að loka á þetta. Ég nýti mér þetta inn á vellinum því í níu af hverjum tíu skiptum, ef ég held einbeitingu, vinnum við leikinn.“

„Sama hvað hver segir verður ekki tekið af mér það sem ég hef afrekað og unnið í þessum leik,“ segir John Terry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×