Skoðun

Tengslanet frumkvöðla

Þórunn Jónsdóttir skrifar
Tengslanetið er eitt mikilvægasta en vanmetnasta verkfæri frumkvöðulsins. Ég hitti iðulega frumkvöðla sem segja mér að þeir sé lélegir í að „networka“ og nota það sem afsökun fyrir því að tala ekki við ókunnugt fólk á ráðstefnum og kokteilboðum.

Ég hef örlitla samúð en mjög litla þolinmæði fyrir slíkum afsökunum. Sjálf var ég mjög feimin sem barn og unglingur og jafnvel langt fram á fullorðinsár.

En eftir að í frumkvöðlaheiminn kom sá ég fljótt að feimnin þyrfti að fjúka því maður kæmist ekki langt ef maður þyrði ekki að tala við nýtt fólk. Hvernig ætlarðu að fá fyrsta viðskiptavininn þinn ef þú þorir ekki að tala við hann?

Til að brjóta ísinn er gott að leggja sig fram um að vera brosmild-/ur og opin-/nn í fasi á tengslanetsviðburðum. Það gerir öðrum auðveldara fyrir að nálgast þig. Þá er ekki verra að mæta ein-/n þíns liðs á viðburði því það neyðir þig til að fara út fyrir þægindahringinn og tala við aðra.

Kynntu aðra

Íslendingar eru ekkert sérstaklega góðir í að kynna samferðarfélaga sína fyrir öðrum sem veldur því að samtöl verða oft þannig að tveir tala og einn stendur vandræðalegur hjá því hann hefur ekki verið kynntur og á því erfiðara með að blanda sér í samtalið.

Ef þú ferð með öðrum á viðburði, vendu þig þá á að kynna þá fyrir fólki. Það er almenn kurteisi og gerir það að verkum að fólkið í kringum þig fer að kynna þig fyrir öðrum í staðinn og aðstoðar þig þannig við að stækka þitt tengslanet.

Nýttu samfélagsmiðlana

Til eru hinir ýmsu miðlar til að halda samskiptum gangandi og er LinkedIn einna bestur fyrir viðskiptatengsl. Leggðu smá vinnu í að uppfæra LinkedIn prófílinn þinn, setja inn fagmannlega mynd (ekki mynd af þér með börnunum þínum!), fylla í alla reiti sem hægt og biðja fólk um að gefa þér meðmæli.

Ég mæli með því að halda viðskiptatengslum utan Facebook ef mögulegt er, en ef þú ert með viðskiptatengiliði á Facebook er gott að hafa þá í sér hópi sem sér ekki allt sem þú gerir á miðlinum. Þannig nærðu að hafa fagmannlegt yfirbragð án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að vera merkt/-ur á myndum af djamminu.

Eftir hverju ertu að bíða? Farðu út að networka!




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×