Innlent

Tengsl vændis við skipulagða glæpastarfsemi rannsökuð

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Vændi sem þrífst á Íslandi er nátengt mansali. Manseljendur eru íslenskir jafnt sem erlendir og hafa oft á tíðum tengsl við skipulagða glæpastarfsemi út í heimi sem og hér á landi. 

Aldrei hafa fleiri vændiskaupamál komið á borð ríkislögreglustjóra en á síðasta ári en þau voru samtals hundrað sjötíu og fimm árið tvö þúsund og þrettán. Rúmlega sjö sinnum fleiri en árið áður.

Stór hluti vændis- og mansalsmála ratar þó aldrei á borð lögreglu, átakið á síðasta ári gefur því aðeins vísbendingu um umfang vandamálsins. Alþekkt er að fórnarlömb neita að viðurkenna eigin stöðu eða gera sér ekki grein fyrir henni. Þar að auki er þessi málaflokkur sérlega erfiður hvað rannsóknir varðar.

Tengsl vændis og mansals á Ísland við skipulagða brotastarfsemi er umfjöllunarefni Heiðu Bjarkar Vignisdóttur en hún birti niðurstöður sínar í meistaraprófsritgerð sinni á dögunum. Niðurstaðan er sú að vændi þrífst á Íslandi, er tengt mansali og skipulagðri glæpastarfsemi.

„Oft er það þannig. Innlend gengi, jafnt sem erlend — stundum í slagtogi. Konur er líka sendar hingað til lands í stuttan tíma á vegum samtaka og þá er yfirleitt íslenskir aðilar sem hafa eitthvað með að segja,“ segir Heiða Björk.

Rannsókn Heiðu er byggð á lagarammanum, dómaframkvæmd, fræðiskrifum sérfræðinga og viðtölum við sérfræðinga á þessu sviði, þar á meðal réttarsálfræðinga, yfirmenn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og aðila sem sinna málum fórnarlamba mansals og vændis. Rannsóknarniðurstöðurnar varpa ljósi á það að þeir sem stunda mansal eru íslenskir jafnt sem erlendir og hafa oft og tíðum tengsl við skipulögð brotasamtök erlendis sem og hérlendis.

„Það er gríðarlegur bisness í þessari starfsemi. Þetta er ein ábótasamasta starfsemi skipulagðra glæpasamtaka, mansalið. Þá sérstaklega kynlífsþjónusta og það er algjörlega markaður fyrir slíka þjónustu á Íslandi, eins og rannsóknir hafa sýnt fram á.“

Aðeins tvisvar hefur dómur fallið í málum tengdum mansali. Fimm Litháar voru dæmdir í fimm ára fangelsi hver árið tvö þúsund og tíu í fyrsta máli sinnar tegundar á Íslandi. Í dómi Hæstaréttar segir að háttsemi mannanna hafi verið þaulskipulögð með einbeittum ásetningi í samstarfi við brotamenn erlendis.

Heiða Björk segir að mikið af því vændi sem þrífst á Íslandi tengist mansali og skipulagðri brotastarfsemi. Konur séu sendar hingað ti lands til þess að leggja stund á vændi, oft gegn eigin vilja. Þær eru fluttar hingað, hýstar og hagnýttar í kynferðislegum tilgangi.

„Það þarf að upplýsa fólk. Það þarf að upplýsa fólk um að það er vændi á Íslandi sem er í tengslum við mansal og það er auðvitað grafalvarlegt,“ segir Heiða Björk að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×