Lífið

Tengjum við draugamyndir

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Grafir og bein - Draugasögur hafa heillað íslendinga í gegnum tíðina.
Grafir og bein - Draugasögur hafa heillað íslendinga í gegnum tíðina. skjáskot
Íslenska hrollvekjan Grafir & bein verður frumsýnd í lok mánaðarins. Myndin er fyrsta mynd leikstjórans Antons Sigurðssonar og er fyrsta íslenska draugamyndin í einhvern tíma. Í tilefni þess tók Fréttablaðið saman lista yfir nokkrar þekktar íslenskar draugamyndir.

Grafir & bein fjallar um hjónin Gísla og Sonju sem lenda í því að veröld þeirra hrynur þegar dóttir þeirra, Dagbjört, deyr. Þegar bróðir Gísla og kona hans deyja ákveða hjónin að taka dóttur þeirra, Perlu, í fóstur. Þá fara heldur betur undarlegir hlutir að gerast. Með helstu hlutverk fara Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir.

Það hafa ekki ýkja margar hryllingsmyndir verið gerðar hér miðað við hinn gríðarlega fjölda draugasagna í þjóðararfinum, svo að athyglisvert verður að sjá hvernig tekist er á við umfjöllunarefnið í Grafir & bein.



Húsið
Húsið (1983)

Hrollvekja eftir Egil Eðvarðsson sem hræddi mörg börnin á sínum tíma. Hún er hugsanlega fyrsta íslenska „genre“-myndin, þ.e. mynd sem fylgir ákveðinni stefnu og hugsanlega fyrsta myndin sem var tekin upp að mestu í upptökuveri. „Ungt par fær inni í gömlu húsi í Reykjavík og verður þess fljótlega vart að húsinu fylgir eitthvað sem er þeim yfirsterkara. Forsaga hússins tekur völdin,“ segir á Kvikmyndavefnum.

Draugasaga
Draugasaga (1985)

Sjónvarpsmynd sem Viðar Víkingsson leikstýrði, skrifaði og klippti. „Ungur næturvörður, í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg, kynnist förðunardömu og saman ákveða þau að setja á svið draugagang til að hrekkja annan næturvörð. Rauðhærð afturganga lætur á sér kræla. En brátt kárnar gamanið og kraftar leysast úr læðingi sem þau ráða ekki við,“ segir á Kvikmyndavefnum.

Djákninn
Djákninn (1988)

Sjónvarpsmynd sem er einnig eftir Egil Eðvarðsson, byggð á sögunni um Djáknann á Myrká. Myndin gerist í nútímanum og er Djákninn uppfærður sem afturgenginn mótorhjólatöffari með aftursleikt hár. Valdimar Örn Flygenring leikur Djáknann en María Ólafsdóttir leikur Guðrúnu, sem er kölluð Gugga í myndinni.

Frost
Frost (2012)

Frost er spennutryllir eftir Reyni Lyngdal sem kom út fyrir tveimur árum. „Frost fjallar um ungt par, Öglu jöklafræðing og Gunnar kvikmyndagerðarmann sem koma að mannlausum rannsóknarbúðum á hálendi Íslands. Leiðangursmenn virðast hafa horfið á dularfullan hátt og Agla og Gunnar standa frammi fyrir óþekktu og banvænu afli,“ segir á Kvikmyndir.is.

Haukur Viðar Alfreðsson.
Tengist hinni íslensku veðráttu

En hvað er það sem hefur heillað Íslendinga svona við draugasögur í gegnum tíðina? „Það hljómar kannski klisjukennt en er það ekki svolítið tengt náttúrunni og veðráttunni?“ spyr Haukur Viðar Alfreðsson sig, kvikmyndaáhugamaður og stofnandi hryllingsmyndahópsins Kommóðu Kaligarís á Fésbók. „Ég er að horfa út um gluggann núna og þetta er allt saman dökkgrátt og voðalegt. Íslendingar tengja mikið við drauga og myrkrið út af því hvar í heiminum við búum.“

„Ég hef oft velt fyrir mér því hvers vegna við eigum ekki mikið af draugakvikmyndum, þrátt fyrir þennan mikla áhuga Íslendinga á draugasögum, en ég hef svo sem aldrei reynt sérstaklega að greina það,“ segir Haukur. „Ég held að myrkrið gæti mögulega útskýrt þetta að hluta. Ástæðan fyrir því að Íslendingar í dag heillist af þessu er að forfeður okkar gerðu það einnig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×