Erlent

Tengja sjaldgæft krabbamein við brjóstaígræðslur

Dauðsföll níu kvenna í Bandaríkjunum af völdum sjaldgæfrar tegundar krabbameins eru talin tengjast brjóstaígræðslum, að sögn Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA). Stofnunin telur að líkur kvenna með brjóstaígræðslur á að fá krabbameinið séu litlar en auknar í samanburði við þær sem eru ekki með ígræðslur.

Krabbameinið er afar sjaldgæft stórfrumueitlakrabbamein sem leggst á frumur ónæmiskerfisins. FDA hefur fengið níu tilkynningar um dauðsföll af völdum meinsins. Stofnunin telur tengsl á milli brjóstaígræðslna og krabbameinsins, að því er segir í frétt CNN.

„Allar þær upplýsingar sem við höfum að svo stöddu benda til þess að konur með brjóstaígræðslur hafi litlar en auknar líkur á að þróa með sér krabbameinið borið saman við konur sem eru ekki með brjóstapúða,“ segir FDA.

Í flestum tilfellum er meinið talið stækka hægt og vel er hægt að meðhöndla það. 

Bandarísku lýtalæknasamtökin telja að tíu til ellefu milljónir kvenna í heiminum séu með brjóstaígræðslur. Færri en tíu tilfelli krabbameinsins sem um ræðir og tengjast brjóstapúðum greinast á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×