Erlent

Tengdasonur Trump sagður miðpunktur í rannsókn FBI vegna afskipta Rússa

Birgir Olgeirsson skrifar
Jared Kushner og Donald Trump.
Jared Kushner og Donald Trump. Vísir/EPA
Tengdasonur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem jafnframt er einn af ráðgjöfum hans, er einn þeirra sem er til skoðunar hjá alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, vegna rannsóknar á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra.

Tengdasonurinn er hinn 36 ára gami Jared Kushner en bandaríska dagblaðið The Washington Post segir FBI einblína á nokkra fundi sem Kushner hélt með sendiherra Rússlands og stjóra rússneska ríkisbankans Vnesheconombank í desember síðastliðnum.

Washington Post sagði frá því í síðustu viku að náinn ráðgjafi Trump væri til rannsóknar vegna afskipta Rússa af forsetakosningum í Bandaríkjunum, en nefndi ekki Kushner í því samhengi.

FBI beinir einnig sjónum sínum á fyrrverandi öryggisráðgjafa Trump, Michael Flynn, og Paul Manafort, sem stýrði framboði Donald Trump.

Washington Post tekur fram að Kushner hafi ekki verið sakaður um afbrot, en hann sé engu að síður sá aðili sem fái mesta athygli frá FBI við þessa rannsókn.

Einn af lögfræðingum hans áréttaði við Washington Post að Kushner væri búin að bjóðast til að mæta fyrir bandaríska þingið og greina frá því hvað hann veit um þessa fundi. Hann muni veita allar upplýsingar sem hann búi yfir ef eftir því verður óskað.

Washington Post segir Kushner hafa hitt Sergey Kislyak, sendiherra Rússa, í New York snemma í desember síðastliðnum, og hafi seinna sent undirmann sinn á fund með Kislyak. Michael Flynn á einnig að hafa verið á þessum fundi snemma í desember. Síðar í sama mánuði á Flynn að hafa hringt í Kislyak til að ræða þvingunaraðgerðir Bandaríkjamanna gegn Rússum.

Kushner er einnig sagður haf hitt Sergey Gorkov, sem fer fyrir Vnesheconombank, en sá banki hefur orðið fyrir barðinu á viðskiptaþvingunum Bandaríkjamanna sem var komið á eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×