Sport

Tengdamamma besta tenniskappa heims: Girtu niður um þig og sýndu mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Murray.
Andy Murray. Vísir/Getty
Skotinn Andy Murray komst í efsta sæti heimslistans í tennis í lok síðasta árs en tókst ekki að fylgja því eftir á fyrsta risamóts ársins í Ástralíu í janúar. Það vissu hinsvegar færri að hann glímdi við veikindi.

Andy Murray sagði frá veikindum sínum eftir sigur í fyrstu umferð á Dúbæ meistaramótinu í gær en þar kom það fram hvernig tengdamamma hans uppgötvaði hvað var að kappanum.

Andy Murray tapaði óvænt fyrir Mischa Zverev í fjórðu umferð opna ástralska meistaramótsins í janúar og það hafði ekki mikið heyrst í kappanum síðan þá.

„Ég var með smá útbrot frá rassi inn á maga. Þetta var ekkert skelfilegt. Vanalega líður manni betur þegar maður klórar sér í slíkum útbrotum en að þessu sinni var það mjög sársaukafullt,“ sagði Andy Murray á blaðamannafundinum.  Telegraph sagði frá.

„Ég hélt að þetta væri nú ekkert en það var móðir konunnar minnar sem uppgötvaði þetta,“ sagði Andy Murray.

„Við vorum að borða kvöldmat eitt kvöldið og ég var að kvarta yfir því hversu pirrandi þessi útbrot voru. Þá sagði hún bara: Girtu niður um þig og sýndu mér. Þetta gæti verið ristill,“ sagði Murray.

Tengdamamma hafi rétt fyrir sér. „Ég fór til læknis daginn eftir og hún hafði rétt fyrir sér,“ sagði Murray.

Þetta var fyrir fimm vikum en nú er Andy Murray kominn aftur á fulla ferð eftir veikindin staðráðinn í því að halda toppsætinu á heimslistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×