Erlent

Temer ákærður fyrir mútuþægni

Atli Ísleifsson skrifar
Michel Temer hefur heitið því að sýna fram á sakleysi sitt.
Michel Temer hefur heitið því að sýna fram á sakleysi sitt. Vísir/AFP
Michel Temer, forseti Brasilíu, hefur verið ákærður fyrir að þiggja mútur. Forsetinn er sakaður um að hafa tekið við háum fjárhæðum frá eiganda kjötvinnslufyrirtækis í landinu sem þegar er innvinklaður í spillingarhneyksli sem hefur sett brasilíska stjórnkerfið á aðra hliðina.

Temer forseti heldur fram sakleysi sínu en ákæran er nú til meðferðar hjá Hæstarétti landsins sem ákveður í framhaldinu hvort málið verði lagt fyrir þing landsins sem þarf þá að ákveða hvort Temer forseti verði dreginn fyrir rétt.

Temer hefur heitið því að sýna fram á sakleysi sitt. Ýmsar ásakanir hafa verið bornar á Temer eftir að hann tók við embætti forseta á síðasta ári, en þetta er í fyrsta sinn sem hann er ákærður.

Ákæran var birt eftir að hljóðupptökur af Temer og stjórnarformanni kjötvinnslufyrirtækisins JBS, Joesley Batista, voru gerðar opinberar. Á þeim virðast þeir Temer og Batista vera að ræða mútugreiðslur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×