Innlent

Telur starfi Davíðs Þórs lokið

Sveinn Arnarsson skrifar
Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra. vísir/hanna
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, lítur svo á að starfi Davíðs Þórs Björgvinssonar, setts ríkissaksóknara í endurupptökumálum Guðmundar- og Geirfinnsmála, sé lokið. Ljóst er að málið muni koma inn á hennar borð á síðari stigum.

Endurupptökunefndin skilaði af sér í gær eftir um þriggja ára vinnu, að taka ætti upp mál fimm einstaklinga sem voru sakfelldir í málinu árið 1980, en alls voru sex sakfelldir. Að mati Sigríðar var Davíð Þór aðeins settur ríkissaksóknari í þeim þætti málsins.

Davíð Þór var settur í embættið þann þriðja október 2014 eftir að Sigríður Friðjónsdóttir lýsti sig vanhæfa í málinu vegna fjölskyldutengsla.

„Ég sem dómsmálaráðherra mun auðvitað ekki koma að efni málsins. Hinsvegar mun ég á einhverju stigi málsins setja nýjan saksóknara yfir málið. Einnig mun ég, ef þurfa þykir, setja nýja dómara í embætti í þessu máli séu menn einnig vanhæfir þar,“ segir Sigríður. „Davíð Þór var settur saksóknari yfir afmörkuðum þætti málsins og því lít ég svo á að hans störfum sé lokið.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Margra ára meðferð málsins í réttarkerfinu

Hvarf Guðmundar Einarssonar var tilkynnt þann 29. janúar 1974 til lögreglunnar en síðast sást til hans í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974 eftir dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×