Viðskipti innlent

Telur mikilvægt að blása til markvissrar sóknar og samstarfs milli atvinnulífs og stjórnvalda

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins mynd/aðsend
Á Iðnþingi sem fram fer á morgun munu fulltrúar fyrirtækja í íslenskum iðnaði ræða mikilvægi þess að skapa nýjar lausnir til að bæta framleiðni hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum Iðnaðarins.

Þar segir að nýsköpun, auk menntunar, sé ein meginforsenda framleiðniaukningar fyrir bæði fyrirtæki og þjóðir. Hún eigi sér stað innan bæði rótgróinna og nýstofnaðra fyrirtækja og spili stórt hlutverk hjá stórum fyrirtækjum sem smáum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, mun ávarpa þingið og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra tekur þátt í umræðum ásamt fjölbreyttum hópi fulltrúa frá íslenskum iðnfyrirtækjum. Þingið er kjörinn vettvangur til að kynnast hugmyndum um hvernig megi auka hagsælda hér á landi til framtíðar.

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Samtaka iðnaðarins telur að Ísland eigi að geta verið aðlaðandi kostur fyrir bæði fólk og fyrirtæki í nýsköpun. „Eins og staðan er núna eru öflug fyrirtæki og hæfileikaríkt ungt fólk á leið úr landi, sem annars myndi vilja starfa hér og lifa. Nú er því mikilvægt að blása til markvissrar sóknar og samstarfs milli atvinnulífs og stjórnvalda. Liður í því er að bæta starfsumhverfi fyrirtækja og gera það samkeppnishæfara,“ segir Guðrún.

Nánar verður fjallað um hlutverk nýsköpunar og menntunar í því að auka framleiðni hér á landi á Iðnþingi 2015 sem verður haldið á morgun 5. mars klukkan 14-16 á Hilton Reykjavík Nordica.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×