Innlent

Telur Islamófóbíu ráða lokuninni

Jakob Bjarnar skrifar
Sverrir í Moskunni: Skaðabótamál hlýtur að vera yfirvofandi því allir pappírar eru í lagi sem og allar nauðsynlegar uppáskriftir.
Sverrir í Moskunni: Skaðabótamál hlýtur að vera yfirvofandi því allir pappírar eru í lagi sem og allar nauðsynlegar uppáskriftir. snorri ásmundsson
Sýningarskáli Íslands á Feneyjartvíæringnum er enn lokaður. Yfirvöld tóku ákvörðun um að loka innsetningu Christops Büchel, Moskunni í Santa Maria della Misericordia-kirkjunni sem staðsett er í Cannaregio-hverfinu í Feneyjum, á föstudaginn. Sýningin hefur verið umdeild en uppgefin ástæða er sú að þar sé salernisaðstaða ekki nógu góð og of margir hafi verið í salnum.

Vísir náði tali af Sverri Agnarssyni, formanni Félags íslenskra múslíma, sem er hluti innsetningarinnar, en hann er nú staddur í Kuveit á leið til Dubai. „Hún er ennþá lokuð en yfirvöld eru hætt að reyna á trúarlegum forsendum,“ segir Sverrir. Hann segir þetta lögfræðimál og og vert væri að heyra í íslenskum yfirvöldum, þá þeim hjá menntamálaráðuneytinu ... „hvort þeim finnist þessi spaðatíningur sem lokunin byggist á vera ásættaleg og hvað ætla þeir að gera, fara í skaðabótamál eða láta sér nægja að skrifa bréf?“

Sverrir segir þetta klárlega mismunun. „Engir aðrir sýningarbásar þurfa að lúta svona kröfum. Það má tilbiðja skurðgoð á einum afríska skálanum en ekki  Guð í þeim íslenska. Allstaðar máttu vera í afrískum fötum en ein af ástæðunum fyrir að reyna að loka hjá okkur var klæðnaður. Þetta er Islamófóbía á háu stigi og styður menntamálaráðuneytið hana með aðgerðaleysi. Þetta er jú framlag okkar sem hefur kostað helling - 24 milljónir frá ráðuneytinu og annað eins hefur listamaðurinn lagt fram. Allt hans verðlaunafé sem hann var nýbúinn að fá, frá Sviss að ég held, sem var umtalsvert fór í verkefnið þannig að skaðabótamál hlýtur að vera yfirvofandi því allir pappírar eru í lagi sem og allar nauðsynlegar uppáskriftir. Það vantar engin leyfi heldur er allt stimplað í bak og fyrir.“


Tengdar fréttir

Þrasið hluti af verkinu

Moska Christoph Büchel sem er íslenska verkið á tvíæringnum í ár hefur valdið miklu fjaðrafoki í Feneyjum frá opnunardegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×