Innlent

Telur hálendislokanir ótímabærar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Lokanir á hálendinu bitna illa á fyrirtækjum sem gera út á ferðir þangað og ferðaþjónustuaðili í Reykjahverfi er ósáttur við lokanirnar. Þá gagnrýnir hann skort á upplýsingagjöf og samráði við hagsmunaaðila.

Eftir að hálendinu norðan Vatnajökuls var lokað var opnuð fjöldahjálparmiðstöð í grunnskólanum við Mývatn og ef til flóðs kemur eru menn tilbúnir með slíkar miðstöðvar á Kópaskeri og Húsavík. En það eru ekki allir sáttir við lokanirnar.

„Ég taldi þær alls ekki tímabærar og set líka spurningamerki við hvaða vegum var lokað og hverjum ekki. Mér fannst þetta mjög ótímabært miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir,“ segir Rúnar Óskarsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Fjallasýnar.

Rúnar, sem þjónustað hefur ferðamenn í áratugi og meðal annars boðið upp á dagsferðir í Öskju, segir fréttaflutning af Bárðarbungu í miklum æsifréttastíl, einkum erlendis. „Á Íslandi og í íslenskri náttúru þýðir ekki að vera áhyggjufullur. Við verðum að takast á við það sem kemur, þegar það kemur og við höfum gott teymi vísindamanna til að vara okkur við í tíma.“

Rúnar segir veltutap verulegt auk þess sem ástandið auki mjög vinnuálag þar sem útskýra þurfi aðstæður fyrir ferðamönnum. Hann gagnrýnir að upplýsingagjöf hafi aðeins farið fram í gegnum fjölmiðla og að samráð skorti. „Það hefur enginn sem hefur með þessi mál að gera, lokanir og annað, verið í sambandi við okkur til að leita álits eða til að ræða málin.“

Hann segir mikilvægt að reyna að bjóða upp á eitthvað í staðinn fyrir ferðir sem nú séu útilokaðar vegna lokana. „Það er auðvitað stóra viðfangsefnið, að fólk haldi áfram að koma, bæði inn á okkar svæði og hætti ekki við að koma til landsins.“

Hann segir afar misjafnt hvernig ástandið leggist í ferðamenn. „Það fer mikið til eftir því hvort þeir ræða við Íslendinga sem eru tiltölulega rólegir yfir þessu eða hvort þeir eru eltir uppi erlendis frá af sínum fjölskyldum og þeir nánast kallaðir heim, vegna þess að hér sé allt að fara á versta veg.“


Tengdar fréttir

Aðgerðir koma illa við ferðaþjónustuna

Hræringarnar undir Bárðarbungu þegar haft mikil áhrif á samfélagið, meðal annars á ferðaþjónustu. Rauði krossinn er búinn undir hamfarir eins og aðrir viðbragðsaðilar.

Almannavarnir funduðu á Húsavík í dag

Mörg hundruð manns vinna að undirbúningi fyrir hugsanlegar náttúruhamfarir ef Bárðarbunga gýs og ríkislögreglustjóri fundaði með viðbragðsaðilum á Húsavík í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×