Innlent

Telur byggðastefnu ríkisstjórnar skaðræði

Jakob Bjarnar skrifar
Eygló og Sigríður Ingibjörg sem segir ekki vænlegt til eflingar byggðar að flytja eina og eina stofnun út á land en það dragi hins vegar úr gæðum stjórnsýslunnar.
Eygló og Sigríður Ingibjörg sem segir ekki vænlegt til eflingar byggðar að flytja eina og eina stofnun út á land en það dragi hins vegar úr gæðum stjórnsýslunnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, furðar sig á þeim hugmyndum ráðherra að vilja flytja yfirstjórn barnaverndarmála og réttindagæslu fatlaðra út á land.

Fréttablaðið greinir í dag frá þessum áformumEyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra að vilja flytja málefni Barnaverndarstofu, Fjölmenningarseturs og réttargæslumanna fatlaðs fólks út á landsbyggðina. Eygló vísar til stjórnarsáttmálans, þar sem kveðið er á um mikilvægi þess að flytja opinber störf út á land.

Sigríður Ingibjörg spyr hvort Eygló hafi velt því fyrir sér hvernig standi á því að LÍÚ, Samtök atvinnulífsins og Bændasamtökin eru með skrifstofur sínar í Reykjavík? Sigríður gagnrýnir þessar hugmyndir ríkisstjórnarinnar harðlega.

„Þær skjóta skökku við. Því það er náttúrlega þannig að allar stofnanir, eða samtök sem eru að fást við ákveðna tegund hagsmunagæslu eða stjórnsýslu, vilja vera í nálægð við ýmsa aðra starfsemi. Þetta er lykilatriði: Megnið af sérfræðiþekkingu sem þarf, til dæmis til að sinna réttindagæslu og barnaverndarmálum, sérfræðingar í þessum málum eru á höfuðborgarsvæðinu.“

Sigríður segir að byggðastefnu ríkisstjórnarinnar skaðræði, þó hún leggi ríka áherslu á mikilvægi byggðastefnu.

„Byggðastefna er mjög mikilvæg, sem þá horfir til þróunar heilu svæðanna og hvað sé gott til að mannlíf blómstri þar og atvinnumöguleikar og ýmis lífsgæði séu til staðar. En að taka eina og eina stofnun og flytja út á land er ekki leiðin til að efla byggð á Íslandi en dregur hins vegar úr gæðum stjórnsýslunnar.“

Sigríður Ingibjörg gerir ráð fyrir því að hart verði tekist á um þetta mál á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×