Innlent

Telur áhættu Mosfellsbæjar vegna lóðar undir einkaspítala enga

Ingvar Haraldsson skrifar
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, handsalar samkomulag við Henri Middeldorp, stjórnarformann MCPB.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, handsalar samkomulag við Henri Middeldorp, stjórnarformann MCPB.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir áhættu bæjarins vegna samnings um lóð undir einkarekinn spítala og hótel enga þótt bærinn hafi ekki nákvæmar upplýsingar um hvaða aðilar standi að fjárfestingunni eða með hvaða hætti verkefnið verði fjármagnað. Fjárfestarnir hafa frest til 1. desember 2017 til að sýna bæjaryfirvöldum raunhæfa viðskiptaáætlun og veita upplýsingar um fjármögnun verkefnisins. Gangi það ekki eftir er bænum heimilt að rifta samkomulaginu. „Ef þessar upplýsingar koma ekki eða eru ekki þóknanlegar þá getur Mosfellsbær gengið út úr verkefninu hvenær sem er,“ segir Haraldur.

Félagið MCPB gerði leigusamning við bæinn um lóð til 99 ára, með kauprétt að landinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Haraldur hefur sagt að um vika hafi liðið frá því fulltrúar MCPB hafi sett sig í samband við bæjarfélagið þar til skrifað var undir samkomulagið. Henri Middeldorp, stjórnarformaður MCPB, segir verkefnið verða fjármagnað með láni frá hollenska félaginu Burbanks Capital. Engir Íslendingar koma að fjármögnun.

Haraldur segir MCPB þurfa að afla byggingarleyfis innan tveggja ára, annars sé bænum heimilt að rifta samkomulaginu. „Við erum fyrst og fremst að úthluta lóð undir þetta verkefni ef af því verður. Þarna stendur lóð sem er skipulögð undir þessa starfsemi. Það hafa ekki verið neinir í biðröðum að óska eftir að fá að nota hana,“ segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×