Enski boltinn

Telur að Ronaldo og Benitez fari báðir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez og Cristiano Ronaldo.
Rafael Benitez og Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty

Rafael Benitez nýtur stuðnings forseta og stjórnar Real Madrid en það kom fram á blaðamannafundi Florentino Perez, forseta Real, í gær.

Sjá einnig: Benitez öruggur hjá Real Madrid í bili

Engu að síður telur spænski blaðamaðurinn Guillem Balague að Benitez verði ekki í starfi hjá Real á næsta tímabili. Enn fremur reiknar hann með því að stórstjarnan Cristiano Ronaldo fari annað.

Ronaldo hefur að undanförnu verið bæði orðaður við PSG í Frakklandi og sitt gamla lið, Manchester United í Englandi.

„Ég er nokkuð viss um að Florentino sé að hugsa um breytinar,“ er haft eftir Ballague á vef Sky Sports. „Mér finnst það ósanngjarnt enda hefur hann [Benitez] sýnt að hann gætur bætt nánast hvaða lið sem er ef hann fær tækifæri, tíma og traust til þess.“

„En það er ýmsilegt annað í gangi og fólk utan félagsins er að beita hann þrýstingi. Florentino er efins og ég sé ekki fyrir mér að Rafa verði þarna á næsta tímabili.“

Bæði Benitez og Ronaldo eru samningsbundnir Real Madrid til 2018 en Ballague telur að Perez sé nú að leita leiða til að losa Ronaldo og fá inn annað stórt nafn - til að mynda Sergio Agüero eða Eden Hazard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×