Innlent

Telur að kjósendur muni varast „vinstrislysin“ í næstu þingkosningum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að það eigi ekki að koma á óvart að stuðningur við ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana skuli vera að aukast. Í umræðum um störf þingsins í dag gerði Karl efnahagsstjórn núverandi ríkisstjórnar að umtalsefni og sagði mikinn árangur hafa náðst.

„Fjármálastefna og ríkisfjármálaáætlun staðfesta þau risaskref sem tekin hafa verið og það góðæri sem hér er. Ef menn vilja ekki hlusta á stjórnvöld og telja allt sem frá þeim koma þá skulum við vitna í nýja hagspá Así alþýðusambandið spáði samfelldum hagvexti hérlendis í átta ár,“ sagði Karl meðal annars á þingi í dag. Hann sagði hag heimilanna hafa batnað og að spá ASÍ gerði ráð fyrir að einkaneysla muni vaxa um sex prósent á árinu, sem er það mesta frá árinu 2007.

Þingmaðurinn ræddi síðan fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar þar sem stjórnarandstöðuflokkarnir eru við völd:

„Við þurfum ekki að líta lengra en til Reykjavíkur til að sjá hvað mun gerast ef Samfylkingin, Vinstri grænir, Björt framtíð og Píratar komast til valda. Rekstur borgarinnar er í algjörum ólestri, fullkomnum ólestri. Þannig var rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á síðasta ári tólf milljörðum króna lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Niðurstaðan er neikvæð um tæpa fimm milljarða en gert hafði verið ráð fyrir um 7,3 milljarða afgangi.“

Karl sagði að hér væri um að ræða „einstakt afrek stjórnarandstöðunnar.“

„Slakur rekstur er síðan afsakaður með því að borgin þurfi að standa við skuldbindingar. Almenningur þarf líka að standa við sínar skuldbindingar, hvort sem það eru lán eða annað. Í næstu alþingiskosningum verður kosið á milli sem sýna ráðdeild og ábyrgð í fjármálum og þeirra sem kunna ekki að fara með fjármuni. Kjósendur eru sem betur fer skynsamir, þeir munu varast vinstrislysin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×