Fótbolti

Telma Hjaltalín og félagar í bikarúrslit eftir dramatík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Telma Hjaltalín (t.h.) í leik með Aftureldingu í sumar.
Telma Hjaltalín (t.h.) í leik með Aftureldingu í sumar. Mynd/Stefán
Tvö mörk á fimm mínútum undir lok framlengingar tryggði Stabæk 4-3 sigur á Lilleström og sæti í úrslitaleik norska bikarsins í knattspyrnu.

Óhætt er að segja að leikurinn hafi verið stórkostleg skemmtun enda komu mörkin á færibandi. Lilleström hafði frumkvæðið í venjulegum leiktíma. Liðið komst í 1-0 og 2-1 en alltaf jöfnuðu heimakonur með glæsimörkum.

Í framlengingunni komst Lilleström í 3-2 með fallegu skoti upp í vinkilinn og þannig stóðu leikar þar til fimm mínútur voru eftir af framlengingunni. Þá jöfnuðu heimakonur og tryggðu sér svo sæti í úrslitaleiknum með marki í viðbótartíma framlengingar.

Stabæk mætir Íslendingaliðinu Avaldsnes í bikarúrslitaleiknum. Avaldsnes vann stórsigur á Vålerenga 5-1 í gær þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði fjögur mörk.

Telma Hjaltalín Þrastardóttir kom ekkert við sögu hjá Stabæk í dag. Hún getur orðið bikarmeistari í annað skiptið en Stabæk varð bikarmeistari árið 2011. Hún kom þá inn á í úrslitaleiknum aðeins sextán ára gömul.

Markaskorari Lilleström sýndi stuðningsmönnum Stabæk skýr skilaboð í dag. Þeir fögnuðu hins vegar áður en yfir lauk.Skjáskot/NRK1



Fleiri fréttir

Sjá meira


×