Viðskipti innlent

Telja það með öllu óásættanlegt að stjórnvöld afhendi fjölmiðlum upplýsingar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir/GVA

Vegna frétta síðustu daga um ætlað samráð á flutningamarkaði hefur Samskip sent frá sér yfirlýsingu en Samkeppniseftirlitið hefur kært ellefu starfsmenn Samskipa og Eimskipa til sérstaks saksóknara fyrir stórfelld brot á samkeppnislögum.



Í tilkynningunni segir að félagið starfi af heilindum á markaði þar sem ríkir virk samkeppni. Það sé skoðun Samskipa að skýr samkeppnislög og skilvirkt eftirlit séu nauðsynleg til að tryggja heilbrigt atvinnulíf.



„Starfsemi Samskipa hefur ávallt grundvallast á samkeppni á öllum mörkuðum og félagið hefur verið leiðandi í að skapa virka samkeppni. Samskip hafa verið óhrædd við að benda eftirlitsaðilum á þegar félagið telur að keppinautar á markaði fari ekki að lögum. Ábendingar okkar til Samkeppniseftirlitsins hafa m.a. leitt til sektargreiðslna eins af samkeppnisaðilum okkar.“



Í tilkynningunni segir að eftirlitsaðilar gegni ábyrgðarmiklu hlutverki og heimildir þeirra til rannsókna séu afar víðtækar.



„Því er það sjálfsögð og eðlileg krafa að trúnaður ríki um gögn sem aflað er með jafn inngripsmikilli aðgerð og húsleit, með dómsúrskurði, á meðan mál eru til rannsóknar. Sá trúnaður er ekki til staðar og gögnum hefur verið komið til fjölmiðla um mál sem ekki er búið að ákveða hvort tekið verður til rannsóknar, hvað þá að ákærur hafi verið gefnar út.“



Forsvarsmenn Samskipa telja það með öllu óásættanlegt að stjórnvöld (Samkeppniseftirlitið eða Sérstakur saksóknari) afhendi fjölmiðlum upplýsingar þar sem bornar séu á aðila alvarlegar sakir, sem hlutaðeigandi einstaklingar og fyrirtæki hafa ekki verið upplýstir um og hafa enga möguleika á að svara fyrir sig eða bera hönd fyrir höfuð sér með neinum hætti.



„Það er vægast sagt undarlegt að vera leiksoppur í því sem virðist vera barátta ríkisstofnana fyrir tilvist sinni og/eða auknum fjárveitingum og gersamlega óásættanlegt að orðspori, mannorði og sjálfsögðum mannréttindum sé ýtt til hliðar fyrir slíka hagsmuni.“



Hjá Samskipum starfa yfir 500 manns. „Starfsfólkið og fjölskyldur þeirra þurfa að sitja undir órökstuddum dylgjum um mál sem enn er til skoðunar. Í gær sendi Samkeppniseftirlitið frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að eftirlitið sé „ekki reiðubúið að staðfesta þá umfjöllun sem fram kom í Kastljósi í gærkvöldi. Þá skal sérstaklega tekið fram að rannsókn málsins er ekki komin á það stig að unnt sé að slá neinu föstu um niðurstöður hennar.“ Rétt er því að varast að fella dóm í málinu en bíða eftir því að niðurstaða liggi fyrir. Samskip hafa ekkert að fela og treysta því að niðurstaða skoðunar Samkeppniseftirlitsins og Sérstaks saksóknara sýni það.“



Í tilkynningunni segir að fyrirtækið viti að ábyrgð þess sé mikil og eru forsvarsmenn Samskipa meðvitaðir um þær skyldur sem þeir bera gagnvart viðskiptavinum þeirra og þá um leið almenningi í landinu.



„Starfsfólk Samskipa hefur unnið ötullega og eftir bestu samvisku að því að stuðla að virkri samkeppni og aukinni hagsæld á Íslandi með því að bjóða viðskiptavinum sínum hagkvæmar lausnir í flutningum og flutningatengdri þjónustu atvinnulífinu í landinu og samfélaginu öllu til heilla.“


Tengdar fréttir

Kærð fyrir samkeppnislagabrot

Samkeppniseftirlitið hefur kært ellefu starfsmenn Samskipa og Eimskipa til sérstaks saksóknara fyrir stórfelld brot á samkeppnislögum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×