Erlent

Telja Svía hafa greitt mútur vegna sölu herflugvéla

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Fyrrverandi forseti Brasilíu í stuði.
Fyrrverandi forseti Brasilíu í stuði. NORDICPHOTOS/AFP
Fyrrverandi forseti Brasilíu, Lula da Silva, vill að Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, komi til Brasilíu til að bera vitni um þátt hans í sölunni á JAS-herflugvélum.

Frá því að Verkamannaflokkurinn missti völdin í Brasilíu í fyrra þegar Dilma Rousseff forseti neyddist til að fara frá hafa Lula da Silva verið birtar fjórar ákærur, að því er Dagens Nyheter greinir frá. Hann er sakaður um að hafa þegið þakíbúð að gjöf frá byggingafyrirtæki, fengið viðgerð á sumarbústað og að hafa skipulagt greiðslur frá öðru byggingafyrirtæki til hliðhollra stjórnmálamanna.

Ástæða þess að Lula da Silva er einnig ákærður fyrir brot í sambandi við útflutning Svía á JAS-herflugvélunum er sú að saksóknarar fundu sem samsvarar 84 milljónum íslenskra króna á reikningi yngsta sonar hans sem var greiðsla frá einstaklingi sem dæmdur hafði verið fyrir spillingu. Verjandi Lula da Silva segir soninn hafa fengið féð annars staðar frá.

Saksóknarar telja að Lula da Silva, Dilma Rousseff og Stefan Löfven hafi gengið frá sölu JAS-herflugvélanna á hótelherbergi við útför Nelsons Mandela í Suður-Afríku 2013. Löfven var þá ekki orðinn forsætisráðherra Svíþjóðar. Það er mat saksóknaranna að Lula da Silva hafi nýtt sér stöðu sína sem fyrrverandi forseti og tekið við fé til að telja Rousseff á að kaupa herflugvélarnar.

Verjandi da Silva, Cristiano Zanin, segir að í tölvupósti sem saksóknarar hafa undir höndum skrifi Löfven að hann vilji hitta da Silva við útför Mandela. Það sé enginn glæpur. Fundur þeirra hafi verið á persónulegur en ekki viðskiptafundur.

Löfven kveðst ekki hafa setið á hótelherbergi og fundað með forsetunum fyrrverandi. Hann hafi ekki fengið boð frá dómara um að koma til Brasilíu og hann hyggst ekki fara þangað. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×