Innlent

Telja rangt að úthýsa gæludýrunum

Reglur um dýrahald hefur lengi verið við lýði.
Reglur um dýrahald hefur lengi verið við lýði. vísir/getty
„Mér finnst Félagsþjónustan voða lítið leyfa fólki að ráða hvort það vilji gæludýr inn í íbúðir sínar og mér finnst það bara alrangt að banna það,“ segir Ólafía Ingibjörg Sverrisdóttir sem leigir hjá Félagsþjónustu Reykjanesbæjar.

Ólafía stofnaði í fyrradag Facebook-hóp til að kalla saman þá sem vilja berjast gegn reglum sem takmarka dýrahald í félagslegum íbúðum. Hún átti áður kött sem hún mátti ekki taka með sér í íbúðina sína vegna reglnanna. Hún segir að margir aðrir séu ósáttir með þær. Ólafía bendir á að margir sem glíma við andleg veikindi hafi gott af því að umgangast gæludýr og að margir þeirra hafi gert það í mörg ár og því sé það óréttlátt að þeir geti ekki haldið gæludýr lengur.

Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, segir að reglur um gæludýrahald séu ekki nýjar af nálinni en samkvæmt reglum um íbúðir hjá Brynju hússjóði er gæludýrahald óleyfilegt. Sömu sögu er að segja með félagslegt húsnæði í Reykjavík, Reykjanesbæ og fleiri sveitarfélögum.

„Við höfum fengið margar kvartanir frá fólki sem finnur fyrir ofnæmisviðbrögðum,“ segir Björn. „Við höfum verið að árétta þessar reglur. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að aðrir leigjendur hafa líka ákveðin réttindi,“ segir Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×