Erlent

Telja nauðsynlegt að bregðast við hundaæði og bólusetja hunda

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Lítill hvolpur bólusettur 
í Balí Indónesíu í apríl síðastliðnum. Þúsundir flækingshunda bæjarins hafa ógnað ferðaiðnaði þar eftir að hundaæði kom upp árið 2008.
Lítill hvolpur bólusettur í Balí Indónesíu í apríl síðastliðnum. Þúsundir flækingshunda bæjarins hafa ógnað ferðaiðnaði þar eftir að hundaæði kom upp árið 2008. Vísir/EPA
Sérfræðingar segja mikilvægt að áhersla verði lögð á að bólusetja hunda gegn hundaæði. Allt að sextíu þúsund manns láta lífið ár hvert af veirusýkingunni en þetta fólk smitaðist nær allt eftir hundsbit. BBC greinir frá.

Heimsbandalag fyrir eftirlit með hundaæði sagði að fjölda bólusetning hunda gæti orðið sögulegur viðburður. Samtökin Verndum heilsu dýra hafa fært rök fyrir því að fjármunum væri best varið í að vernda hunda ef vernda á fólk gegn hundaæði.

Einhverjir íbúar í öllum heimsálfum hafa smitast af hundaæði en langflest dauðsföll eru í Asíu og Afríku. Eftir að einkenni koma fram er hundaæði nánast alltaf banvænn sjúkdómur en þó er hægt að bjarga manneskju sem bitin hefur verið með því að sprauta hana með bóluefni. Það verður þó að gerast strax eftir að hún var bitin.

Í frétt BBC um efnið kemur fram að um fjörtíu prósent þeirra sem verða fyrir biti séu undir fimmtán ára aldri.

„Ég veit ekki hvort það er einhver annar sjúkdómur sem er jafnauðvelt að koma í veg fyrir á jafnódýran máta sem hefur áhrif á jafnmarga,“ sagði Carel du Marchie Sarvaas, framkvæmdastjóri  Verndum heilsu dýra. Hann sagði að bóluefni væru ódýr og að með rétt um þúsund krónum væri hægt að bólusetja tuttugu hunda í eitt ár.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×