Erlent

Telja múmíu hafa notað kannabis til að draga úr einkennum brjóstakrabbameins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Múmían fannst fyrir 20 árum og var einstaklega vel varðveitt.
Múmían fannst fyrir 20 árum og var einstaklega vel varðveitt. Vísir/Getty
Árið 1993 var 2500 ára gömul múmía grafin upp í Altai-fjöllum í Rússlandi. Múmían, sem var af konu á þrítugsaldri, reyndist mjög vel varðveitt og mátti meðal annars sjá húðflúr á líkama hennar auk þess sem hún hafði verið grafin með kjöti, skartgripum og skrautlegum klæðnaði. Vísindamenn telja þetta benda til þess að hún hafi verið mikilsmetin í samfélagi sínu og hafa kallað múmíuna Altai-prinsessuna.

Síðan múmían fannst fyrir rúmum 20 árum hafa vísindamenn rannsakað hana og orsakir þess að hún dó. Þeir telja sig nú hafa komist að því að hún hafi látist úr brjóstakrabbameini og að hún hafi notað kannabis til að draga úr einkennum sjúkdómsins.

Kannabis fannst í gröfinni hjá múmíunni og segja vísindamenn að það renni stoðum undir að hún hafi notað efnið vegna sjúkdómsins. Aðrar fornminjar styðja einnig við þá kenningu og að ættbálkur sem múmían tilheyrði hafi einnig notað vín og ópíum í lækningaskyni.

Natalya Polosmak, vísindamaður sem leiddi rannsóknarvinnuna, segir í samtali við Siberian Times  að notkun kannabis og annarra efna hafi væntanlega verið ill nauðsyn fyrir veika konuna, en ekki verið notað sem fíkniefni líkt og gert er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×