Viðskipti innlent

Telja fasteignamarkaðinn vera að glæðast

Mynd/GVA
Uppfærð spá Seðlabankans um bata og horfur í efnahagslífinu er að ýmsu leyti bjartari en spá bankans í maí. Innlend eftirspurn dróst minna saman en gert var ráð fyrir, fasteignamarkaðurinn er að glæðast og atvinnuleysi að hjaðna.

Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans, en þar er að finna nokkuð ítarlega spá um efnahagslífið. Bankinn segir að sé mið tekið af hagvexti á fjórða ársfjórðungi 2009 og fyrsta ársfjórðungi 2010 sé efnahagsbatinn að hefjast fyrr en áætlað var. Í nýju spánni er ráð fyrir 1,9% samdrætti á þessu ári sem er um hálfu prósenti minna en gert var ráð fyrir í maí. Hagvaxtahorfur eru þó nokkru slakari fyrir næstu tvö ár.

Bankinn telur meiri seiglu í innlendu efnahagslífi á fyrsta ársfjórðungi en áður hafði verið gert ráð fyrir. Innlend eftirspurn dróst saman um 2%, sem er rúmlega helmingi minni samdráttur en bankinn bjóst við. Munurinn helgast af minni samdrætti samneyslu en áður var spáð. Þó er minni vexti einkaneyslu spáð nú en í maí.

Hinsvegar eru horfur á að almenn atvinnuvegafjárfesting sé að taka við sér á ný og bankinn býst við mun minni samdrætti í fjárfestingu. Bankinn telur að framleiðsluslakinn í hagkerfinu verði um 4% í ár í stað 4,5% í maí.

Verðbólga og atvinnuleysi að hjaðna

Fasteignaverð mun lækka minna en maíspá bankans gerði ráð fyrir, en fasteignamarkaðurinn hefur heldur glæðst það sem af er þessu ári. Uppsöfnuð velta í júlí á fasteignamarkaði er um fimmtungi meiri en í fyrra.

Horfur eru á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var fyrir um í síðustu Peningamálum. Meðalverðbólga á árinu 2010 verður 5,7% ef spá bankans gengur eftir, en það er um hálfri prósentu minni verðbólga en gert var ráð fyrir í maí.

Þá telur bankinn að atvinnuleysi nái hámarki í 9% á fyrsta fjórðungi næsta árs, en verði komið niður í um 6% árið 2012. Það er um einu prósenti minna atvinnuleysi yfir allt spátímabilið samanborið við maíspánna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×