Viðskipti innlent

Telja erfitt fyrir ríkisstjórnina að ná markmiðum í húsnæðismálum

ingvar haraldsson skrifar
Ríkisstjórnin tilkynnti um víðtækar aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum síðastliðinn föstudag, m.a. í húsnæðismálum.
Ríkisstjórnin tilkynnti um víðtækar aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum síðastliðinn föstudag, m.a. í húsnæðismálum. vísir/gva
Hagfræðideild Landsbankans telur að erfitt gæti orðið fyrir ríkisstjórnina að ná öllum markmiðum sínum í húsnæðismálum sem fram komu í yfirlýsingu á föstudaginn. Landsbankinn segir markmiðin mjög háleit og halda þurfi verulega vel á spöðunum ef þau eigi að nást.

Markmið yfirlýsingarinnar eru að skapa bætti skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði með því að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum og styðja við leigumarkað og kaup á fyrstu íbúð. Til þess þurfi að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum.

Með þessu hyggist opinberir aðilar tryggja að leigukostnaður einstaklinga fari ekki yfir 20 til 25 prósent af tekjum. Landsbankinn bendir á að eigi þetta markmið að nást megi húsaleiga hinna tekjulægstu árið 2018 ekki fara yfir 75 þúsund krónur á mánuði en þá verða lægstu laun 300 þúsund krónur á mánuði.

„Þessi markmið um upphæð húsaleigu eru háleit í ljósi þess hver byggingarkostnaður er í dag. Þrátt fyrir að húsaleigubætur hækki og byggingarkostnaður lækki með nýjum reglum verður eflaust erfitt að ná þessum markmiðum, jafnvel þótt íbúðir verði af minna tagi,“ segir í greiningu Landsbankans.



Telja undirbúning þurfi að hefjast strax


Einnig er bent á að ríkisstjórnin þurfi að vera vel á tánum ef markmið um að byggja 2.300 nýjar íbúðir á árunum 2016 til 2019. „Skipulag og undirbúningur aðgerða af þessu tagi tekur jafnan mikinn tíma, t.d. hvað varðar nýtt skipulag eða breytingar á deiliskipulagi. Miðað við yfirlýsinguna þyrfti að byggja a.m.k. 500 nýjar félagslegar leiguíbúðir á árinu 2016 og til þess að það náist þarf markviss undirbúningur að hefjast strax.“

Þá þurfi einnig að breyta byggingarreglugerðum og skipulagslögum til þess að auka hagkvæmni við íbúðabyggingar og lækka byggingarkostnað. Stefnt er að því að til verði nýr mannvirkjaflokkur, sem einkum nái til smærri og ódýrari íbúða, sem undanþegnar verði reglugerð um altæka hönnun. „Til þess að markmið yfirlýsingarinnar náist þarf einnig að hraða þessum breytingum, sem eru alls ekki einfaldar,“ segir Hagfræðideildin.


Tengdar fréttir

Óttast að tekjulægri borgi skattalækkanirnar

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar segist óttast að kostnaðurinn við nýtilkynntar aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni bitna á fjárhag hinna verst settu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×