Innlent

Telja ekki pláss fyrir flóttamenn í Grindavík

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Meirihluti bæjarráðs vill bjóða flóttamönnum tvær eða þrjár íbúðir en minnihlutinn telur ekki pláss fyrir þá.
Meirihluti bæjarráðs vill bjóða flóttamönnum tvær eða þrjár íbúðir en minnihlutinn telur ekki pláss fyrir þá. vísir/valli
„Eftir skoðun á minnisblaði sem unnið var af bæjarstjóra Grindavíkur er það okkar mat að húsnæðisskortur er í Grindavík og vegur það þyngst við þessa ákvörðun,“ bókuðu fulltrúar D-lista þegar meirihluti bæjarráðs Grindavíkur samþykkti að hefja viðræður um móttöku flóttamanna.

Samkvæmt tillögu meirihlutans leggur Grindavíkurbær fram tvær til þrjár íbúðir fyrir flóttamenn og ætlar í viðræður við velferðarráðuneytið um málið. Fulltrúar minnihluta Sjálfstæðisflokks sögðu þetta ekki tímabært og sátu hjá.

„Nú þegar hafa allnokkur sveitarfélög boðist til þess að fara í viðræður við velferðarráðuneytið um móttöku á flóttamönnum. Mörg af þeim stærri eru talsvert betur í stakk búin til verkefnisins varðandi þjónustu eins og túlkun, sálfræðiaðstoð, og fleira,“ bókuðu sjálfstæðismenn og bentu á að stjórnvöld hefðu ekki tekið ákvörðun um hversu marga flóttamenn á að taka inn til landsins.

„Þegar það skýrist og það verður vöntun á sveitarfélögum til að taka við flóttamönnum, erum við að sjálfsögðu tilbúin til að endurskoða okkar afstöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×