Viðskipti erlent

Telja að olían endist í 150 ár hið minnsta

Kristján Már Unnarsson skrifar
Borskipið Bucentaur siglir frá Reykjavík sumarið 2013. Skipið var að koma úr oliuleit í Barentshafi á leið í næsta verkefni við strendur Nýfundnalands og kom við á Íslandi til töku vista og áhafnaskipta.
Borskipið Bucentaur siglir frá Reykjavík sumarið 2013. Skipið var að koma úr oliuleit í Barentshafi á leið í næsta verkefni við strendur Nýfundnalands og kom við á Íslandi til töku vista og áhafnaskipta. Stöð 2/KMU.
Bandaríska olíufélagið ExxonMobil telur að olía haldi áfram að vera mikilvægasti orkugjafi mannkyns næsta aldarfjórðung, að minnsta kosti. Félagið spáir því að olíunotkun aukist um 30 prósent fram til ársins 2040. Aukningin verði mest í samgöngum og efnaiðnaði, og þá einkum í ríkjum sem eru að stíga upp úr fátækt.

Þetta kemur fram í framtíðarskýrslu ExxonMobil en samkvæmt henni telur félagið að næg vinnanleg olía sé til á jörðinni til að mæta eftirspurn næstu 150 árin hið minnsta. Félagið kynnti skýrsluna í Noregi í síðasta mánuði og ræddu norskir fjölmiðlar þá við talsmann félagsins.

„Við sjáum að það eru stöðugt fleiri auðlindir sem við getum nálgast,“ segir Todd Onderdonk, aðalráðgjafi ExxonMobil, í viðtali við norska Aftenbladet. Hann tekur fram að skýrslan lýsi ekki þróun sem ExxonMobil sé að óska eftir heldur sé þetta spá um hvernig félagið telji að framvindan verði.

„Í eitthundrað ár hafa menn haft áhyggjur af því að olíuöldin væri búin að ná hámarki. En við sjáum að mannkynið kemur með nýjar lausnir og við þróum stöðugt nýja tækni. Við teljum einnig að þetta sé spurning um hver sé besti valkosturinn. Við getum ekki bara af sjálfsdáðum hætt einhverju sem færir fólki bestu lausnina. Í samgöngum, til dæmis, er olía besti orkugjafinn til að mæta óskum almennings,“ segir Onderdonk.

Gas verður stærsti sigurvegari næstu áratuga, að mati ExxonMobil. Þar muni eftirspurn aukast um 65 prósent fram til ársins 2040. Gaslindir muni auk þess endast mannkyni í minnst 200 ár til viðbótar. Olíufélagið telur að sífellt fleiri skipti út kolum fyrir gas og hlutur kola í heildarorkunotkun jarðarbúa minnki úr 25 prósentum niður í 20 prósent. Kolanotkun muni þó haldast óbreytt í magni.

„Allir sem skoða þetta komast að sömu niðurstöðu; að olía, gas og kol verði mikilvægustu orkugjafarnir næstu áratugina,“ segir Onderdonk.

ExxonMobil hefur minni trú á endurnýjanlegum orkugjöfum. Félagið spáir því að árið 2040 nái sól- og vindorka tæplega sex prósentum af heildarorkumarkaði heims. Jafnvel þótt þessar greinar hafi vaxið meira á síðustu árum, en búist var við, telur olíufélagið að sú þróun haldi ekki áfram.

„Við höfum séð kostnað lækka við vind- og sólarorku en við sjáum jafnframt að hún er ekki arðbær án ríkisstyrkja. Við reiknum frekar með að það dragi úr slíkum niðurgreiðslum,“ segir Onderdonk.

Rætist þessi framtíðarspá ExxonMobil er erfitt að sjá hvernig mannkyni á að takast að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að það markmið náist að meðalhiti á jörðinni hækki ekki um meira en tvær gráður.

Samkvæmt spá olíufélagsins mun orkutengd losun aukast um 25 prósent milli áranna 2010 og 2030 en síðan minnka um fimm prósent fram til ársins 2040. Heildarlosun koltvísýrings verði sex milljónum tonna meiri árið 2040 en árið 2010.

„Þeir hvatar sem eru til staðar til að draga úr losun virka ekki. Evrópa til dæmis er með kvótakerfi þar sem verð á koltvísýringi er svo lágt að það hefur gert það arðbært að nota kol,“ segir Onderdonk.

„Við teljum að besta aðferðin til að draga úr losun sé skattur á koltvísýring sem virkar. Það gæti gefið bæði fjárfestum og neytendum skýr skilaboð, - og þá finnur markaðurinn bestu lausnirnar,“ segir aðalráðgjafi ExxonMobil í viðtalinu við Aftenbladet.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×