Innlent

Telja að heimilisofbeldi sé ekki litið nægilega alvarlegum augum

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/pjetur/gva
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafa ákveðið að leggja fram frumvarp þegar þingið kemur saman um það hvernig eigi að taka á þeim mikla vanda sem heimilisofbeldi er.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem þingmennirnir hafa sent frá sér. Það kemur fram að á síðasta ári voru 355 heimilisofbeldismál tilkynnt til lögreglu höfuðborgarsvæðisins, eða um eitt á dag. Talið er að þetta sé aðeins lítill hluti þeirra brota sem eiga sér stað.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingu á almennum hegningarlögum þar sem ný ákvæði um heimilisofbeldi koma inn. Þá mun frumvarpið fela í sér það nýmæli að lögregla fær heimild til að kæra brot gegn nálgunarbanni, en í núverandi er það einungis þolandi sem kært getur slík brot.

„Samkvæmt úttekt embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum er ljóst að fá heimilisofbeldismál hljóta meðferð innan réttarkerfisins. Þá er rannsókn slíkra mál ábótavant. Til dæmis hafa úrræði laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili ekki verið verið nýtt sem skyldi og einnig er skortur á stuðningi fyrir þolendur og eftir atvikum gerendur heimilisofbeldis,“ segir í tilkynningunni frá þingmönnunum.

Þar segir einnig líklega sé heimilisofbeldi ekki litið nægilega alvarlegum augum í samfélaginu og þörf sé viðhorfsbreytingu.

„Ríkt tilefni er til að skerpa á afstöðu löggjafans til heimilisofbeldis í almennum hegningarlögum og er tilgangur frumvarpsins að koma til móts við þau viðhorf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×