Innlent

Telja að draga muni úr fjölgun ferðamanna á næsta ári

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ernir
Greiningadeild Arion banka telur að strax á næsta ári fari að draga úr fjölgun erlendra ferðamanna og að aukningin árið 2019 verði komin niður í tíu prósent frá fyrra ári. Hún er talin verða 39 prósent í ár.

Þetta kemur fram í nýrri ferðaþjónustuúttekt bankans sem kynnt var í morgun. Þar spáir bankinn því að vöxtur í komum ferðamanna slái öll met í ár en að hægja taki síðan á vextinum. Spáin hljóðar upp á 2,2 milljónir ferðamanna á næsta ári og að fjöldinn fari upp í 2,5 milljónir árið 2019.

Þá segir að í fyrra hafi Bandaríkjamenn og Bretar verið fjölmennastir allra ferðamanna hingað til lands, eða 38 prósent. Það sem af er þessu ári hefur bandarískum ferðamönnum fjölgað mest en einnig hefur ferðamönnum frá Kanda, Póllandi og Bretlandi fjölgað mikið.

Brexit, eða útganga Breta úr Evrópusambandinu, virðist enn sem komið er ekki hafa haft sýnileg áhrif þar sem breskum ferðamönnum fjölgaði um 16 prósent eftir Brexit kosninguna í júní. Flugframboð bendir ekki til þess að fækkun breskra ferðamanna sé í kortunum á næstunni.

Rússneskum ferðamönnum fækkaði hins vegar um 39 prósent í fyrra frá árinu áður og Norðmönnum um fjögur prósent. Ástæðan er lakara efnahagsástand í olíuútflutningsríkjum, samkvæmt úttekt bankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×