Erlent

Telja að al-Baghdadi hafi flúið frá Mosúl

Atli ísleifsson skrifar
Boris Johnson er utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson er utanríkisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Leyniþjónustur á Vesturlöndum telja að Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna ISIS, hafi flúið borgina Mosúl í Írak.

Írakskar og kúrdískar öryggissveitir sækja nú hart að borginni og reyna að ná borginni aftur út höndum ISIS sem náðu borginni á sitt vald í júní 2014.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, sagði breskum þingmönnum frá því í gær að leyniþjónustan telji al-Baghdadi hafa „yfirgefið svæðið“. Breska blaðið Guardian greinir frá þessu.

Baghdadi hvatti í gær sína menn í Mosúl til dáða og sagðist sannfærður um sigur í baráttunni um borgina. Áróðursdeild ISIS birti hljóðupptöku með orðum al-Baghdadi þar sem hann hvatti jafnframt stuðningsmenn ISIS í öðrum löndum til að framkvæma sjálfsvígsárásir, valda eyðileggingu og láta blóð vantrúaðra flæða.

Talið er að um fimm þúsund vígamenn ISIS séu í borginni og segir al-Baghdadi að það sé þúsund sinnum betra að berjast til síðasta blóðdropa í stað þess að flýja í skömm.


Tengdar fréttir

Íraksher kominn inn í úthverfi Mosúlborgar

Tugir þúsunda hafa flúið frá nágrannabyggðum Mosúl síðan sóknin hófst fyrir rúmri viku. Bandaríkjaher sagður hafa orðið átta manna fjölskyldu að bana með loftárás á heimili hennar. Á meðal þeirra sem fórust voru átta börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×