Enski boltinn

Telegraph-skjölin: Aðstoðarþjálfari Barnsley þáði mútur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tommy Wright tók við mútugreiðslu.
Tommy Wright tók við mútugreiðslu. vísir/getty
The Telegraph stóð Tommy Wright, aðstoðarþjálfara Barnsley, að því að þiggja mútur. Jimmy Floyd Hasselbaink, knattspyrnustjóri QPR, og Massimo Cellino, eigandi Leeds United, eru einnig í vandræðum vegna uppljóstrana blaðsins.

Sem frægt er orðið hætti Sam Allardyce sem landsliðsþjálfari Englands vegna uppljóstrana The Telegraph. Blaðið birti á vef sínum myndband þar sem Allardyce sést samþykkja 400.000 punda greiðslu fyrir að aðstoða austurlenska viðskiptajöfra, sem voru í raun blaðamenn The Telegraph í dulargervi, að fara á svig við reglur enska knattspyrnusambandsins um kaup á leikmönnum í eigu þriðja aðila. Eignarhald þriðja aðila á leikmönnum hefur verið bannað á Englandi frá 2008.

Líkt og í tilfelli Allardyce villtu blaðamenn The Telegraph á sér heimildir og þóttust vera í forsvari fyrir fyrirtæki í Austurlöndum fjær þegar þeir hittu Wright.

Aðstoðarþjálfarinn samþykkti að hjálpa þeim að kaupa og selja leikmenn gegn greiðslu. Wright var gripinn glóðvolgur en það náðist á myndband þegar hann tók við umslagi sem innihélt 5000 pund. Þetta átti sér stað á hóteli í Leeds 11. ágúst síðastliðinn.

Wright var leystur undan störfum hjá Barnsley eftir að The Telegraph gerði félaginu viðvart um mútugreiðsluna sem hann þáði. Engar líkur eru taldar á því að Barnsley hafi vitað um samskipti Wright við fyrirtækið né mútugreiðsluna.

Hasselbaink er einnig í vondum málum eftir að hann samþykkti að hjálpa sama „fyrirtæki“ að ræða við austurlenska fjárfesta. Hollendingurinn var tilbúinn að fljúga til Austurlanda fjær til að tala við fjárfesta fyrir 55.000 pund skiptið.

Hann virtist einnig opinn fyrir því að kaupa leikmenn í eigu fyrirtækisins þrátt fyrir hagsmunaárekstra. Hasselbaink hefur þvertekið fyrir að hafa gert nokkuð rangt.

Loks var Cellino staðinn að því að ræða við austurlenska viðskiptajöfra um mögulegar leiðir framhjá reglum enska knattspyrnusambandsins um eignarhald þriðja aðila á leikmönnum.

Í frétt The Telegraph segir að uppljóstranir dagsins auki líkurnar á að óháð rannsókn eða lögreglurannsókn verði sett af stað.


Tengdar fréttir

Shearer: Enska landsliðið er aðhlátursefni

Alan Shearer, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands, segir að enska landsliðið sé aðhlátursefni í fótboltaheiminum eftir að Sam Allardyce hætti sem landsliðsþjálfari eftir aðeins 67 daga í starfi.

Stóri Sam segist iðrast gjörða sinna

Eins og fram kom á Vísi fyrir skemmstu er Sam Allardyce hættur sem þjálfari enska landsliðsins í fótbolta. Allardyce entist aðeins 67 daga í draumastarfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×