Fótbolti

Tel að Elfsborg henti FH ágætlega

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Ég sé ágætis möguleika fyrir FH, ég tel að Elfsborg muni henta þeim ágætlega,“ sagði Skúli Jón Friðgeirsson, leikmaður Gefle IF um möguleika FH gegn Elfsborg í undankeppni Evrópudeildarinnar en hann er á láni hjá Gefle frá Elfsborg.

„Þeir spila fínan fótbolta og það snýst mikið um að halda boltanum en þeir lenda í vandræðum gegn liðum sem sitja aftur og spilaða agaðann varnarleik.“

Skúli er viss um að FH geti nýtt sér galla Elfsborg í leikjunum tveimur.

„Þeir sækja á mörgum mönnum og gleyma sér oft í varnarleiknum sem ætti að opna glufur miðað við þá taktík sem FH og íslensku liðin hafa verið að spila í Evrópuleikjum. Þetta er enginn andstæðingur sem er óvinnandi, þetta er gott lið en það er ekki ósigrandi.“

Skúli var í fyrsta sinn í byrjunarliði Gefle á dögunum í leik gegn Guðjóni Baldvinssyni og Kristni Steindórssyni í Halmstad. Skúli stóð vakt sína vel og hélt liðið hreinu í aðeins fjórða sinn á tímabilinu.

„Þetta var auðvitað töluverður léttir að fá tækifærið og leikurinn gekk vel og vonandi heldur þetta bara áfram. Gaui var heldur góður við mig í leiknum. Við mætum Halmstad aftur á morgun en Gaui er í banni sem er heldur leiðinlegt,“ sagði Skúli sem sagðist ætla að vera með Kristinn í strangri gæslu í hans stað.

„Ef hann kemur eitthvað nálægt mér sparka ég aðeins í hann,“ sagði Skúli léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×