Enski boltinn

Tekur nýjasta leikmann Liverpool í gegn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Xherdan Shaqiri fær ekki mikið lof hjá Charlie Adam. Eiginlega bara ekki neitt.
Xherdan Shaqiri fær ekki mikið lof hjá Charlie Adam. Eiginlega bara ekki neitt. vísir/getty
Charlie Adam, fyrrverandi leikmaður Liverpool, er lítt hrifinn af Svisslendingnum Xherdan Shaqiri sem að hann spilaði með hjá Stoke undanfarin ár.

Jürgen Klopp virkjaði þrettán milljóna punda riftunarverð Shaqiri og gerði hann að nýjasta leikmanni Liverpool en Svisslendingurinn vildi ólmur komast á Anfield og segist tilbúinn að sýna sig á stærsta sviðinu.

Adam hélt mikinn reiðilestur um Stoke-liðið sem féll eftir að liðið fór niður um deild og gagnrýndi þar harkalega „stærstu leikmenn liðsins,“ eins og hann orðaði það.

Hann sagði að þessir svokölluðu stórlaxar hefðu alltaf horfið í stóru leikjunum og þegar að þeir þurftu eitthvað að gera var lítið að frétta. Það var ein helsta ástæða þess að Stoke fór niður.

„Var Shaqiri einn af þeim? Svo sannarlega!“ segir Charlie Adam í viðtali við talkSPORT.

„Þegar að allir er undir horfir maður til stóru leikmannanna í liðinu og vonast til að töfrar þeirra sjáist stöku sinnum á tímabilinu. Þessir stóru leikmenn okkar létu aldrei sjá sig og gerðu ekkert.“

„Vissulega hefðu allir aðrir getað hjálpað til en þessir stóru spilarar gerðu ekkert miðað við allt lofið sem að þeir fengu frá þjálfaraliðinu,“ segir Charlie Adam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×