Lífið

Tekur gítarsóló á sellóið

Baldvin Þormóðsson skrifar
Sveitin er þekkt fyrir að spila gamla slagara á sinn hátt.
Sveitin er þekkt fyrir að spila gamla slagara á sinn hátt. mynd/aðsend
„Þetta er þjóðlagapopp í anda sjöunda og áttunda áratugarins,“ segir Rósa Guðrún Sveinsdóttir, söngkona Robert the Roommate, en sveitin kemur fram á Café Rosenberg í kvöld.

„Þetta er mjög „acoustic“, við erum ekki með trommusett og engan bassa,“ segir hún. „Við erum með slagverk og selló þannig að þetta er pínu óvenjuleg hljóðfæraskipan.“

Sveitin hóf störf vorið 2010 og er þekkt fyrir að spila sína útgáfu af helstu slögurum sjöunda áratugarins en sveitin gaf einnig frá sér sína fyrstu plötu með eigin efni í fyrra sem ber nafnið Robert the Roommate.

Hins vegar verða tónleikarnir í kvöld fyrstu tónleikar sveitarinnar sem hafa eiginlegt þema. „Við höfum verið að halda tónleika með blandi af mismunandi efni,“ segir Rósa. „En í kvöld munum við bara flytja efni eftir okkur sjálf og Led Zeppelin.“

Hljómsveitin hefur mest verið að spila efni eftir tónlistarmenn á borð við Bob Dylan, Neil Young, Nick Cave og fleiri frá þessu tímabili en Rósa segir sveitina ekki breyta lögunum neitt þrátt fyrir óhefðbundna hljóðfæraskipan.

„Það kemur náttúrulega aðeins öðruvísi hljómur,“ segir hún. „Þórdís tekur einhverjar gítarlínur og riff á sellóið.“

Sveitin sendi frá sér sitt fyrsta tónlistarmyndband í gær við lagið I Will Touch You When You Fall en hver veit nema hægt verði að heyra lagið á tónleikunum í kvöld sem fara fram á Café Rosenberg og hefjast klukkan 22.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×