Lífið

Tekur einn dag í einu

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Hermann Hreiðarsson. "Annars hef ég ekkert hugsað um það hvað taki við varðandi fótboltann. Ég hugsa ekki svo langt, er ekki einu sinni búinn að ákveða hvað ég ætla að gera á afmælisdaginn.“
Hermann Hreiðarsson. "Annars hef ég ekkert hugsað um það hvað taki við varðandi fótboltann. Ég hugsa ekki svo langt, er ekki einu sinni búinn að ákveða hvað ég ætla að gera á afmælisdaginn.“ Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
„Það verður nú eitthvað rólegt,“ segir Hermann Hreiðarsson spurður hvað hann ætli að gera í dag til að fagna fertugsafmælinu. „Við förum kannski út að borða en varla neitt meira. Ég er heldur ekkert alveg viss hvort þetta sé eitthvað til að fagna, en kannski held ég upp á áfangann einhvern tíma síðar. Ég kalla mig allavega heppinn að hafa náð þetta langt.“



Spurður hvort þetta séu ekki mikil tímamót fyrir fótboltamann þar sem fáir spila fótbolta sem atvinnumenn eftir fertugt gerir Hermann lítið úr því. „Ég hef nú svo sem ekki verið mikið í gangi í sumar, enda farinn að einbeita mér að öðru, þannig að afmælið breytir ekki miklu til eða frá.“



Það sem Hermann hefur verið að einbeita sér að er bygging og opnun hótels á Hellu sem opnað var um síðustu helgi í tengslum við Landsmót hestamanna. „Það lukkaðist mjög vel og er allt bara mjög jákvætt,“ segir hann og upplýsir að hann sé staddur í Þýskalandi til að kynna sér hitt og þetta í sambandi við hótelreksturinn. „Hugmyndin er að byggja fleiri hótel með tíð og tíma en við látum eitt duga í bili. Skoðum hvernig móttökurnar verða og hvort þetta gangi upp. Eftir það er kannski hægt að fara að undirbúa næstu skref.“



Spurður hvort hann sé alveg hættur að vera viðloðandi fótboltann segir Hermann að hann hafi aðeins verið að aðstoða konu sína, Rögnu Lóu Stefánsdóttur, sem þjálfar kvennalið Fylkis auk þess sem hann hafi mætt á nokkrar æfingar hjá karlaliði félagsins. „Hótelið hefur haft forgang en nú er það farið að rúlla, þannig að maður ætti að geta mætt á fleiri æfingar núna. Annars hef ég ekkert hugsað um það hvað taki við varðandi fótboltann. Ég hugsa ekki svo langt, er ekki einu sinni búinn að ákveða hvað ég ætla að gera á afmælisdaginn. Ég tek bara einn dag í einu.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×