Enski boltinn

Tekst Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea að tryggja sér Evrópusæti?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var flottur á síðasta tímabili.
Gylfi Þór Sigurðsson var flottur á síðasta tímabili. Vísir/Getty
Íslenskir áhugamenn um enska boltann eiga það flestir sameiginlegt að fylgjast vel með gangi mála hjá eina Íslendingaliði ensku úrvalsdeildarinnar burtséð frá því með hvaða liði þeir halda í sjálfri deildinni.

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson stimplaði sig með frábærum hætti inn í velska liðið Swansea City á síðustu leiktíð og átti mikinn þátt í að Swansea náði sínum besta árangri í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi, bæði hvað varðar sæti og stig.

Áttunda sæti var þó ekki nóg til að skila Swansea-liðinu í Evrópukeppnina, því þar vantaði bara eitt sæti og fjögur stig upp á. Southampton tók sjöunda og síðasta Evrópusætið en nú er að sjá hvort Gylfi og félagar geti tekið eitt skref upp og komið liðinu í Evrópu.

Byrjun Gylfa á síðustu leiktíð var draumi líkust, hann lagði upp fyrsta mark ensku úrvalsdeildarinnar og skoraði síðan sigurmarkið sjálfur í 2-1 sigri á Manchester United á Old Trafford. Swansea fær aftur verðugt verkefni í fyrsta umferð þegar liðið sækir Englandsmeistara Chelsea heim á Stamford Bridge í kvöldleik laugardagsins.

Það er erfitt að ætlast til sömu draumabyrjunar og í fyrra, ekki síst þegar litið er til þess að Swansea-liðið fékk á sig níu mörk í tveimur leikjum við Chelsea á síðustu leiktíð.

Fyrsti leikurinn ræður ekki úrslitum um tímabilið hjá Swansea en getur vissulega gefið tóninn fyrir leiktíðina.

Fréttablaðið býst við að Swansea haldi áttunda sætinu og verði aftur að sætta sig við það að rétt missa af sæti í Evrópukeppninni. Hér til hliðar má sjá fyrsta hlutann í spá Fréttablaðsins fyrir tímabilið en við höldum síðan áfram að spá næstu daga.



Spá Fréttablaðsins um sæti 8 til 20 í ensku úrvalsdeildinni 2015-16:

8. sæti            Swansea City

9. sæti            Southampton

10. sæti        Stoke City

11. sæti         Crystal Palace

12. sæti        Newcastle

13. sæti        West Ham

14. sæti        West Bromwich Albion

15. sæti        Sunderland

16. sæti        Bournemouth

17. sæti        Aston Villa

18. sæti og fall    Leicester City

19. sæti og fall    Norwich City

20. sæti og fall    Watford




Fleiri fréttir

Sjá meira


×