Handbolti

Tékknesku stelpurnar unnu Ungverja í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rússar fagna sigri.
Rússar fagna sigri. Vísir/AFP
Lið Tékklands og Rússlands byrjuðu bæði Evrópumótið í handbolta kvenna með góðum sigri í dag en keppni hófst þá í C- og D-riðlum Evrópukeppninnar í ár.

Tékkar unnu 27-22 sigur á Ungverjalandi en þetta var í fyrsta sinn sem tékknesku stelpurnar vinna Ungverja. Svartfjallaland og Danmörk eru einnig í C-riðlinum og mætast seinna í kvöld. Tékkar voru 13-10 yfir í hálfleik.

Veronika Malá og Michaela Hrbková, sem báðar spila í Þýskalandi, voru markhæstar í tékkneska liðinu með fimm mörk hvor. Það kom ekki að sök að Iveta Luzumová, leikmaður þýska liðsins Thüringer HC, klikkaði á öllum átta skotum sínum í leiknum. Anna Kovács var markahæst hjá Ungverjum með sjö mörk.

Rússar unnu öruggan 32-26 á Króatíu á sama tíma. Norðmenn mæta Rúmeníu í hinum leik D-riðilsins seinna í kvöld. Rússar voru 16-13 yfir í hálfleik en unnu svo fyrstu sjö mínútur seinni hálfleiksins 7-2 og komust í 23-15.

Rússarnir Vladlena Bobrovnikova og Victoria Zhilinskayte nýttu báðar öll sex skotin sín í leiknum. Andrea Penezić var markahæst hjá Króatíu með átta mörk og Vesna Milanović-Litre nýtti öll sex skotin sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×