Innlent

Tekjur vegna skemmtiferðaskipa á Ísafirði meira en hálfur milljarður

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Gríðarleg fjölgun hefur orðið í fjölgun erlendra skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar undanfarin ár. Árið 2009 komu 26 skemmtiferðaskip með rúmlega 13.000 farþega. Í ár er von á 50 skipum með rúmlega 46.000 farþega, en það er fjölgun um 350% á fimm árum.

„Ég held að aðalástæðan hljóti að vera sú að Ísland er að selja vel í túrisma almennt, og líka í viðkomu skemmtiferðaskipa. En samt er fjölgunin í prósentum talið, mun meiri hjá okkur en til dæmis á Akureyri eða í Reykjavík,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði.

Hann segir stórlega vanmetið hversu miklar tekjur verða eftir í samfélaginu vegna komu erlendra skemmtiferðaskipa.

„Ég tel að í allri ferðaþjónustunni hér í bænum, þá sé að sitja eftir hérna ekki undir 500 milljónum króna, vegna þess að hér er verið að kaupa skoðunarferðir og aðra afþreyfingu af heimamönnum,“ segir Guðmundur.

Hann sér fram á áframhaldandi fjölgun skipa næstu ár. Nú þegar sé búið að bóka 48 skip fyrir næsta sumar og farþegafjöldinn mun þá í fyrsta skipti fara yfir 50 þúsund.

„Ég vona bara að við náum að halda því áfram að fólki finnist gaman að koma hingað. Það er það sem við viljum, að fólk upplifi gleði og hamingju hér á Ísafirði. Eins og Ísafjörður er, geislar alltaf af gleði og hamingju.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×