Viðskipti innlent

Tekjur sjávarútvegsfélaga námu 263 milljörðum árið 2013

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir/stefán
Íslandsbanki gaf í dag út nýja skýrslu um sjávarútveg á Íslandi en í henni er fjallað er fjallað um þýðingu sjávarútvegs fyrir efnahag landsins og rekstrarárangur fyrirtækja í greininni.

Í skýrslunni segir að beint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu hafi verið 10% árið 2013. Hlutfall veiða var 6,3% og hlutfall vinnslu 3,7%. Óbeint framlag sjávarútvegs er talsvert umfangsmeira og hafa rannsóknir á vegum íslenska sjávarklasans bent til þess að fyrirtæki sem tilheyra sjávarklasanum standi undir um 25-30% landsframleiðslunnar.

8.600 manns störfuðu með beinum hætti við sjávarútveg á árinu 2013. Fleiri störf voru í landi en úti á sjó í fyrsta sinn síðan árið 2004 og störfuðu 5000 manns í landi eða um 58%.

Í skýrslunni kemur fram að íslenski fiskiskipaflotinn hafi dregist saman í fjölda og brúttótonnum, hvoru tveggja um 15% frá árinu 2000 og meðalaldur flotans hafi verið 25 ár á árinu 2013.

Síðastliðna þrjá áratugi hafi þorskaflinn dregist saman um næstum helming en á sama tíma hafa útflutningsverðmæti aflans aukist um 138%.

Tekjur sjávarútvegsfélaga árið 2013 námu 263 milljörðum sem er 5% samdráttur frá fyrra ári. EBITDA var 62 milljarðar og dróst hún saman um 20% frá árinu 2012.

Arðgreiðslur á árinu 2013 námu tæpum 12 milljörðum og hafa aukist um 5,5 milljarða á milli ára eða sem nemur 87% eftir því sem kemur fram í skýrslu Íslandsbanka. Fjárfestingar í sjávarútvegi voru 11 milljarðar árið 2013 sem er 22% yfir meðalfjárfestingu síðastliðins áratugar eða svo.

Áætlanir gera ráð fyrir að fiskeldisframleiðsla muni tvöfaldast á milli áranna 2013 og 2015 og að um 13.700 tonnum verði slátrað árið 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×