Viðskipti innlent

Tekjur Bláa Lónsins námu sjö milljörðum í fyrra

Sæunn Gísladóttir skrifar
Nýtt met var slegið í fjölda heimsókna í Bláa lónið árið 2015.
Nýtt met var slegið í fjölda heimsókna í Bláa lónið árið 2015. Vísir/GVA
Hagnaður af rekstri Bláa Lónsins hf nam 15,8 milljónum evra, jafnvirði 2 milljarða íslenskra króna, árið 2015. Hagnaðurinn jókst um fjórar milljónir evra milli ára, jafnvirði 513 milljóna íslenskra króna.

Rekstrartekjur numu 54,3 milljónum evra, 7 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 39,8 milljónir evra, 5,1 milljarð íslenskra króna, árið 2014. Árið 2015 námu tekjur af aðgangi í Bláa Lónið 33,1 milljónum evra, jafnvirði 4,3 milljarða íslenskra króna.

EBITDA rekstrarársins var 21,3 milljónir evra, 2,7 milljarðar króna, eða 39 prósent af veltu. Árið 2014 nam EBITDA 43 prósent af veltu.

Eigið fé í árslok nam 39,9 milljónum evra, 5,1 milljarði íslenskra króna, eða 52 prósent af heildarfjármagni.

Fram kemur í ársreikningi félagsins að framkvæmdir standi yfir við byggingu hágæða hótels og SPA við Bláa Lónið og að þeim miði vel, áætlað sé að framkvæmdum ljúki á árinu 2017.

Hlutafé félagsins í árslok nam 880,5 milljónum króna og voru hluthafar 58. Stærstu hluthafar eru Hvatning sem á 39,1 prósent, eignarhlut, HS Orka sem á 30 prósent hlut og Keila sem á 9,2 prósent hlut.

Bláa Lónið á sex dótturfélög, Blue Lagoon Cl­inic ehf., BLUE LAGOON in­ternati­onal ehf., Blue Lagoon Tra­vel ehf., Eld­vörp ehf., Hót­el Bláa Lónið ehf. og Íslensk­ar heilsu­lind­ir ehf.

Endanleg fjárhæð arðgreiðslu verður ákveðin á aðalfundi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×