Innlent

Tekinn með 10 lítra af 95 prósenta landa við aftursætið nærri Þorlákshöfn

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Þorlákshöfn.
Frá Þorlákshöfn. Vísir/Ölfus
Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði ökumann bifreiðar sem átti leið um Þorlákshafnarveg skammt frá Þórlákshöfn í gærkvöldi. Í viðræðum við ökumann veittu lögreglumenn athygli 10 lítra plastfötu á gólfi við aftursæti bílsins. Reyndist fatan full af 95 prósenta landa.

Lögreglan á Suðurlandi greinir frá þessu á Facebook en þar kemur fram að hún hafi sinnt 243 verkefnum í liðinni viku. Aðalþunginn var á umferðareftirlit, þar á meðal var farið í umfangsmikið verkefni með starfsmönnum ríkisskattstjóra sem fólst í eftirliti með ökumönnum hópferðabifreiða og hugað að rekstrarleyfum, aksturs- og hvíldartímum og fleira.

Sautján umferðaróhöpp voru tilkynnt í umdæminu á þessu tímabili en í einu tilviki var um ölvunarakstur að ræða þegar ökumaður kastaðist úr bifreið sinni og fótbrotnaði eftir að hafa misst stjórn á bílnum sem valt á Hrunavegi skammt frá Grafarbakka aðfaranótt fimmtudags.

Tilkynnt var um innbrot í sumarbústað við Laugarvatn og þjófnað á verkfærum. Farið var um nágrenni þess bústaðar til að athuga hvort brotist hafi verið inn í fleiri hús. Í ljós kom að farið hafði verið inn í einn bústað til viðbótar. Talið er að innbrotin hafi átt sér stað á tímabilinu frá 16. til 21. mars.

Aðfaranótt miðvikudags var brotist inn í gám á Þingvöllum og úr honum stolið nokkuð af ýmsum verkfærum. Gámurinn er í eigu Ræktunarsambands Flóa og Skeiða sem er að bora eftir vatni á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×