Körfubolti

Teitur segir að Bonneau spili í Ljónagryfjunni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefan Bonneau í leik með Njarðvík í fyrra.
Stefan Bonneau í leik með Njarðvík í fyrra. Vísir/Vilhelm
Stefan Bonneau spilar væntanlega sínar fyrstu mínútur í Domino´s deildinni eftir hásinarslit í kvöld þegar Njarðvík tekur á móti Stjörnunni í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum.

Teitur Örlygsson, aðstoðarþjálfari Njarðvíkinga staðfestir það í samtali við karfan.is í dag.

„Oddur bað hann um smá hjálp og Stefan fannst gott að heyra það. Ég geri ráð fyrir því að hann hvíli Odd í kvöld þegar þurfa þykir," sagði Teitur Örlygsson í samtali við karfan.is.

Stefan Bonneau hefur setið á bekknum í tveimur síðustu leikjum án þess að koma við sögu.

Bonneau spilaði síðast í Domino´s deildinni 17. apríl í fyrra þegar hann skoraði 52 stig í tap í tvíframlengdum leik á móti verðandi Íslandsmeisturum KR í DHL-höllinni.  Bonneau tók 39 skot í þeim leik en í dag er hann rétt að byrja eftir mjög erfið meiðsli.

Njarðvík vann fyrsta leik liðanna 65-62 í Ásgarði í Garðabæ á föstudagskvöldið. Oddur Rúnar Kristjánsson spilaði í 39 mínútur og 46 sekúndur í leiknum og var með 8 stig og 4 stoðsendingar.

Leikur Njarðvíkur og Stjörnunnar hefst klukkan 19.15 í Ljónagryfjunni í Njarðvík en á sama tíma spila Þór og Haukar í Þorlákshöfn. Leikurinn í Þorlákshöfn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og báðir leikirnir verða síðan gerðir upp í Körfuboltakvöldinu sem verður sent út í beinni frá Þorlákshöfn strax eftir leikina.

Þeir sem eru orðnir spenntir fyrir því að sjá Stefan Bonneau í fyrsta sinn í vetur geta skoðað nokkur eftirminnilega myndbönd frá síðasta tímabili hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×