Lífið

Teiknimessa opnuð í Týsgalleríi í dag

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Helga segir fólk í auknum mæli sækjast eftir því að gefa listaverk í gjafir.
Helga segir fólk í auknum mæli sækjast eftir því að gefa listaverk í gjafir. Vísir/Valli
„Þetta eru önnur jólin, við vorum líka með teiknimessuna í fyrra og ætlum að endurtaka hana í ár,“ segir Helga Óskarsdóttir, en hún ásamt Helenu Hansdóttur Aspelund stofnaði Týsgallerí í fyrra.

„Við erum að sýna teikningar og önnur verk á pappír, „collage“ og vatnslitamyndir,“ segir Helga en fjöldi listamanna í samstarfi við galleríið tekur þátt í Teiknimessunni.

Myndirnar á sýningunni verða einnig til sölu. „Fólk hefur tækifæri til að nálgast myndir eftir flotta listamenn,“ segir Helga.

Teiknimessan tókst vel í fyrra að sögn Helgu. „Við erum svolítið að stíla inn á þessa jólatraffík, fólk er kannski ekki að fara að rogast með risa málverk í gegnum bæinn. Þetta er meðfærilegt, upprúllað eða í umslagi.“

En Helga segir að áhugi sé á góðri myndlist og fólk sækist í auknum mæli eftir að gefa listaverk í gjafir en Týsgallerí hefur einnig hafið sölu á gjafabréfum.

„Það var rosalega skemmtileg stemming í fyrra og við ákváðum að endurtaka leikinn,“ segir Helga og bætir við: „Á opnuninni verða léttar veitingar og fólk getur komið hérna inn í hlýjuna og skoðað myndlist.“

Opnun Teiknimessunnar verður í dag klukkan fjögur í Týsgallerí á Týsgötu 3.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×