Erlent

Ted Cruz lýsir yfir stuðningi við Donald Trump

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump og Ted Cruz í kappræðum þegar forval Repúblikana var í fullum gangi fyrr á árinu.
Donald Trump og Ted Cruz í kappræðum þegar forval Repúblikana var í fullum gangi fyrr á árinu. vísir/getty
Ted Cruz, sem sóttist eftir útnefningu sem forsetaefni Repúblikana en laut í lægra haldi fyrir Donald Trump, tilkynnti á Facebook-síðu sinni i kvöld að hann styðji fyrrverandi keppinaut sinn í kapphlaupinu að Hvíta húsinu og ætli að kjósa Trump sem forseta fremur en Hillary Clinton.

Cruz segir tvær meginástæður fyrir þessari ákvörðun sinni. Í fyrsta lagi hafi hann gefið það út í fyrra að hann ætlaði sér að styðja frambjóðanda Repúblikana og hann vill standa við orð sín. Í öðru lagi þá vill hann alls ekki sjá Hillary Clinton sem forseta, þrátt fyrir að hafa oft verið ósammála Donald Trump.

Fyrr á árinu var púað á Cruz á landsþingi Repúblikana þar sem eftir því var tekið að hann lýsti ekki opinberlega yfir stuðningi við Trump, enda hafði Cruz lýst andstæðingi sínum í forvali Repúblikana sem lygara sem ekki væri treystandi fyrir Hvíta húsinu.

Trump brást við stuðningsyfirlýsingu Cruz og kvaðst vera ánægður með að njóta stuðnings frá erfiðum og snjöllum andstæðingi. Ekki eru þó allir jafn sáttir við Cruz. Þannig sagði Rick Tyler, sem var talsmaður hans í kosningabaráttunni gegn Trump, að íhaldsmenn í Bandaríkjunum væru nú að syrgja því þeir hefðu misst leiðtoga sinn.


Tengdar fréttir

Bush eldri sagður ætla að kjósa Clinton

George Bush eldri, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og glerharður Repúblikani, ætlar að kjósa demókratann Hillary Clinton í komandi forsetakosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×