Erlent

Tárin streymdu niður vanga Trudeau þegar hann hitti sýrlenska flóttamenn á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 44 ára Justin Trudeau tók við embætti forsætisráðherra Kanada fyrir rúmu ári.
Hinn 44 ára Justin Trudeau tók við embætti forsætisráðherra Kanada fyrir rúmu ári.
Tilfinningarnar báru kanadíska forsætisráðherranum Justin Trudeau ofurliði þegar hann ræddi við sýrlenska fjölskyldu sem fékk hæli í Kanada í útvarpsviðtali á dögunum.

Heimsathygli vakti þegar Trudeau tók sjálfur á móti fjölskyldunni og fjölmörgum flóttamönnum til viðbótar á flugvelli þegar vél þeirra lenti í Kanada fyrir um ári.

Málefni flóttamanna og hælisleitenda eru mikið til umræðu í Kanada eftir að ákveðið var að taka á móti um 35 þúsund flóttamönnum á einu ári.

Í viðtalinu ræddi fjölskyldan um reynslu sína nú þegar ár er liðið frá komu þeirra. Trudeau segist hafa lofað sjálfum sér að láta tilfinningarnar ekki bera sig ofurliði, en það hafi ekki gengið. Sagði hann málið varpa ljósi á hvað væri best við Kanada.

Í viðtalinu, sem sjá má að neðan, er rætt við Vanig Garabedian, sýrlenskan lækni sem varð að yfirgefa stofu sína og heimili í hinni stríðshrjáðu Aleppo, og fékk loks hæli í Kanada.

„Nú, ári síðar, er ég enn stoltari af því að vera Kanadamaður, alveg eins og ég verð ávallt stoltur Sýrlendingur,“ segir Garabedian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×