Skoðun

Tárin á bak við brosið, mátturinn í núinu

Rúna Magnúsdóttir skrifar
Ég ætla bara að játa það hér og nú, ég er forfallinn junkí. Ég er forfallinn, fljótfær og hugmyndaríkur frumkvöðull – slass – athafnakona með þráhyggju. Alveg frá því í æsku hef ég haft þessa undarlegu þrá að standa og falla með því sem ég geri. Þrá til að taka ábyrgð á mínum athöfnum, viðhorfum og oft á tíðum eigin fordómum. Þrá til að vera virt og viðurkennd kona í vestrænu samfélagi. Viljað taka þátt í leiðum sem geta bætt heiminn á einhvern máta.

Í gegnum tíðina hef ég meðvitað neitað að hlusta á efasemdaraddir í kringum mig, hundsað athugasemdir fólks sem hefur einfaldlega viljað gefa mér góð ráð. Hvað þá að ég hafi leyft mér að hlusta á efasemda niðurbrjótandi röddina inni í mér, ó nei. Þar sem mitt starf hefur snúist um að hjálpa fólki við að finna sinn X-factor og ná sínum draumum hef ég talið mér trú um að ég þurfi að djöflast áfram. Líkt og aðrir frumkvöðlar hef ég gengið í öll þau hugsanlegu störf sem þarf að framkvæma til að láta fyrirtækið mitt ganga. Búið til fyrirlestra, prógrömm, markaðsgögn, markaðssett, selt, skrifað út reikninga og rukkað. Já, ég hef bara bitið á jaxlinn, brosað í gegnum tárin og þrammað áfram veginn, eins og jarðýta.

Ég er jú forfallinn, fljótfær, hugmyndaríkur frumkvöðull sem þráir að eiga þátt í að breyta heiminum, ekki satt? Þegar samferðafólkið spyr mig á förnum vegi þessara klassísku íslensku spurningar: „Hvernig gengur? Brjálað að gera?“ þá svara ég oftast með einhverjum brandara, bæti við brosi og einhverjum jákvæðum, uppbyggilegum orðum.

Á sama tíma langar röddinni innra með mér í raun að öskra og leyfa tárunum að streyma fram vegna áratuga rússíbanareiðar. En nú finnst mér vera komið nóg. Í dag er síðasti vetrardagur. Um leið og ég kveð þennan vetur ætla ég að kveðja mínar eigin klisjur og henda þessari uppsettu fullkomnu mynd af því hvað það er að vera frumkvöðull beint í ruslið. Ég ætla að taka á móti sumrinu með því að gefa mér leyfi til að taka niður varnirnar, vera mennsk, leyfa mér að sýna óhindraða væntumþykju og virðingu til annarra og treysta því að í núinu gerast kraftaverkin. Viltu vera memm?

Pistillinn birtist fyrst í Markaðnum, 20. apríl 2016.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×