Viðskipti innlent

Tap Icelandic Water Holdings nam 1,2 milljörðum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Icelandic Water Holdings rekur átöppunarverksmiðju í Ölfusi.
Icelandic Water Holdings rekur átöppunarverksmiðju í Ölfusi. Vísir/Anton
Vatnsfyrirtækið Icelandic Water Holdings, sem rekur átöppunarverksmiðju í landi Hlíðarenda í Ölfusi, tapaði 10,9 milljónum Bandaríkjadala árið 2015 eða jafnvirði 1,2 milljarða króna. Afkoman var þó betri en árið 2014 þegar reksturinn skilaði 12,9 milljóna dala tapi.

Samkvæmt nýjum ársreikningi vatnsframleiðandans var Jón Ólafsson, stofnandi Icelandic Water Holdings, löngum kenndur við Skífuna, og félög tengd honum stærsti einstaki eigandi fyrirtækisins með 23,1 prósent. Bandaríski drykkjarvörurisinn Anheuser-Busch Inter­national átti þá 19,44 prósenta hlut. Útflutningur á vatninu Icelandic Glacial skilaði tólf milljónum dala, jafnvirði 1,4 milljarða króna miðað við núverandi gengi, samanborið við rétt tæpar tíu milljónir árið áður. Rekstrartekur fyrirtækisins námu alls 12,6 milljónum dala. Eignir þess voru í árslok 2015 metnar á 135 milljónir dala. Verksmiðja Icelandic Water Holdings, land og vatnsréttindi eru þar af bókfærð á alls 100 milljónir dala. Skuldirnar námu 60 milljónum dala.

Jón stofnaði fyrirtækið ásamt syni sínum, Kristjáni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Icelandic Water Holdings, árið 2004. Fyrsta skóflustungan að vatnsátöppunarverksmiðjunni var tekin í ágúst 2007. Icelandic Glacial er selt til víða um heim en tap hefur verið á rekstrinum síðustu ár.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×