Innlent

Tap á rekstri RÚV nam 271 milljón

Bjarki Ármannsson skrifar
Tap af rekstri RÚV eftir skatta nam 271 milljónum króna.
Tap af rekstri RÚV eftir skatta nam 271 milljónum króna. Vísir/GVA
Tap af rekstri RÚV eftir skatta nam 271 milljón króna og tekjur hækkuðu um eitt prósent milli ára. Afkoma síðari hluta rekstrarársins er nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir, 65 milljónir króna í stað hinna áætluðu 83 milljóna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu. Þar segir að í rekstrarniðurstöðu komi ekki að fullu fram þær margvíslegu hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir sem gripið var til á árinu. Þær hafi aðeins byrjað að skila sér á síðari hluta rekstrarársins.

„Rekstrarárið 2013-2014 einkenndist af umtalsverðum sviptingum í rekstri Ríkisútvarpsins,“ segir í tilkynningunni. „Haustið 2013 var fallið frá því að RÚV fengi útvarpsgjaldið óskert sem leiddi til umtalsverðrar lækkunar á væntum þjónustutekjum ársins 2014. Þetta leiddi til umtalsverðs niðurskurðar og umróts í nóvember og desember 2013.“

Í tilkynningunni er vakin athygli á bágri fjárhagsstöðu RÚV. Unnið sé nú að nýjum samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og vilji stjórn RÚV að útvarpsgjald renni óskert til félagsins. Jafnframt verði fallið frá hugmyndum um lækkað útvarpsgjald.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins 6,9 milljörðum króna, bókfært eigið fé í lok reikningstímabilsins er 382 milljónir króna og eiginfjárhlutfall félagsins er 5,5 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×